Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gervinotendum eytt af Facebook og Twitter

21.12.2019 - 07:41
Erlent · - · Facebook · Samfélagsmiðlar · twitter
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Stjórnendur samfélagsmiðlarisanna Facebook og Twitter höfðu í nógu að snúast síðustu daga við að eyða gervinotendum af síðum sínum. Twitter eyddi nærri sex þúsund notendum sem sendu frá sér skilaboð til stuðnings stjórnvalda í Sádi Arabíu. Sú aðgerð var hluti af enn stærri aðgerð þar sem um 88 þúsund notendum var eytt fyrir ýmsar sakir.

Facebook lokaði á 610 notendur, 89 síður, 156 hópa og 72 Instagramnotendur. Þeir áttu það sameiginlegt að dreifa upplýsingum til stuðnings Donald Trump Bandaríkjaforseta, án þess að gera grein fyrir því hverjir stæðu þar að baki.

Nathaniel Gleicher, yfirmaður öryggissviðs Facebook, segir alla notendurna sem eytt var þaðan hafa unnið saman og villt á sér heimildir. Þeir sem bjuggu til notendurna og síðurnar voru ýmist frá Bandaríkjunum eða Víetnam. Samanlagt höfðu notendurnir náð til um 55 milljóna annarra notenda á Facebook. 

Twitter greindi frá því á bloggsíðu sinni í gær að öryggissvið fyrirtækisins hafi tekið eftir ofsafengnum viðbrögðum við skilaboðum þar sem sádiarabíska stjórnin var hyllt. Færslurnar voru flestar á arabísku. Auk yfirgengilegs hróss voru gervinotendurnir brúkaðir til þess að magna upp umræður um þvinganir í garð Írans og framkomu sádiarabískra embættismanna í vestrænum fjölmiðlum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV