Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gervigreind greini sjálfsvígshættu

28.11.2017 - 01:17
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pixabay
Gervigreind verður nýtt til þess að bera kennsl á sjálfsvígshættu notenda á Facebook. Frá þessu greinir Guy Rosen, aðstoðarframkvæmdastjóri framleiðsludeildar samfélagsmiðilsins, á bloggsíðu Facebook.

Forrit verður hannað til þess að leita vísbendinga í færslum notenda, og jafnvel í myndböndum sem fólk streymir í beinni útsendingu í gegnum Facebook Live. Skýrslur verða sendar til starfsmanna Facebook sem koma upplýsingum í hraði til viðbragðsaðila sem eru þjálfaðir í að veita fólki í sjálfsvígshugleiðingum aðstoð.

Þegar er hægt að láta Facebook vita ef notendur telja að vinir þeirra á samfélagsmiðlinum íhugi að fremja sjálfsmorð. Forritið getur hraðað því ferli með tækni sem ber kennsl á hegðunarmynstur notandans. 

Mark Zuckerberg, stjórnandi og forsprakki Facebook, segir hörmulega atburði hafa gerst á samfélagsmiðlinum, þar á meðal sjálfsmorð sem birt hafa verið í beinni útsendingu. Hann segir að mögulega hafi verið hægt að koma í veg fyrir það ef einhver hefði áttað sig á líðan notandans. Zuckerberg hefur sjálfur oft talað um notkun gervigreindar til þess að bæta lífsskilyrði fólks. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV