Gert til að verja kjör bænda

15.12.2016 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Markaðsátak fyrir lambakjöt erlendis er til þess hugsað að verja kjör bænda segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hundrað milljónir króna verða settar í sérstakt markaðsátak fyrir sauðfjárafurðir á erlendum mörkuðum samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga. Það er vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar sem gæti valdið verðlækkun innanlands. 

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, sagðist í viðtali við RÚV í morgun vera gáttaður. Hann sagði að með þessu væru stjórnvöld að verja peningum til að halda uppi verðlagi á Íslandi.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að þetta sé gert til að bregðast við því að Norðmenn hafi hætt við kaup á lambakjöti. Þeir hafa keypt um 600 tonn á ári. Að því er fram kemur í fjáraukalagafrumvarpinu gætu 800 til þúsund tonn lambakjöts safnast upp. „Ef ekkert er að gert mun sú birgðasöfnun á endanum leiða til þess að afkoma bænda versnar því verðfall mun að sjálfsögðu þýða verðfall á þeirra tekjum.“

Gunnar Bragi gefur lítið fyrir gagnrýni Ólafs. „Ég held bara að formaður Neytendasamtakanna þurfi nú að kynna sér málin betur áður en hann fer að gaspra með þessum hætti. Þetta snýst um það fyrst og fremst að bændur geti haldið áfram að framleiða lambakjöt og þá um leið bjóða neytendum sem Ólafur Arnarson er að vinna fyrir upp á ódýra, heilnæma og góða vöru og gott kjöt.“ Aðspurður hvort þetta stangist ekki á við orð í frumvarpinu um að sporna gegn verðlækkunum lambakjöts segir Gunnar Bragi að lambakjöt ætti að vera dýrara en það sé en verslunin haldi verði til bænda niðri.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi