Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gert ráð fyrir svifryksmengun fyrstu klukkutíma ársins

30.12.2019 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Gert er ráð fyrir svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2020 vegna mengunar frá flugeldum en að styrkurinn falli hratt þegar líða tekur á fyrstu nótt ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á loftgæði.is. 

Vindur og úrkoma hafa áhrif á mengun og er útlit fyrir að úrkomu á fyrsta degi ársins. Samkvæmt veðurspá verður suðvestan 5 til 10 metrar á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld, um fjögurra stiga hiti og skúrir á miðnætti. 

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er fólk hvatt til að sýna aðgát, gæta að öryggi sínu og barna og ganga rétt frá flugeldarusli. Mælst er til þess að fólk skili leifum af skoteldum á endurvinnslustöðvar SORPU en setji þær ekki í tunnur við heimili eða við grenndarstöðvar. 

Hávaðinn frá flugeldum getur hrætt gæludýr og hross. Fólk er hvatt til að halda köttum sínum inni yfir áramótin, hafa hunda í ól og huga sérstaklega að hrossum.

Þá er bent á að hægt sé að styrkja björgunarsveitir með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Fyrir rótarskotin verða trjáplöntur gróðursettar næsta sumar um land allt. 

Fólk hvatt til að sýna tillitssemi 

Félag íslenskra lungnalækna hvetur landsmenn til að sýna fólki
með lungnasjúkdóma tillitssemi um áramót. Mengun frá flugeldum geti
valdið öndunarfæraeinkennum hjá viðkvæmum, eins og til dæmis hósta, mæði og andþyngslum. Mengunin skerði lífsgæði þeirra og möguleika til að taka þátt í áramótagleði. 

Í áramótakveðju frá félaginu er fólki bent á að það geti keypt rótarskot í stað flugelda til að draga úr flugeldaskoti um áramót. Skjóta flugeldum upp á opnum afmörkuðum svæðum í stað íbúðahverfa og sleppa því að sprengja stórar tertur og önnur skotfæri sem valdi mikilli mengun við jörð.

Fólk með lungnasjúkdóma geti gert varúðarráðstafanir eins og að hafa glugga og hurðir lokaðar svo mengun berist ekki inn, sett rök handklæði við opnanlega glugga og hurðir og hækka hitastig inni hjá sér. Einnig geti fólk leitað ráða á heilsugæslu um lyfjanotkun og haft innöndunarlyf við
hendina.