Gert að taka fyrir mál afgönsku mæðgnanna

14.11.2016 - 23:03
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kærunefnd útlendingamála hefur gert Útlendingastofnun að taka fyrir mál afgönsku mæðgnanna Torpikey og Maryam til efnismeðferðar. Mægðurnar sóttu um hæli á Íslandi eftir að hafa verið neitað um slíkt í Svíþjóð. Fjögur ár eru síðan mægðurnar lögðu á flótta frá Afganistan.

Magnea Marínósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og sérfræðingur í málefnum kvenna í Afganistan, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.  Þar segist hún vona að þessi niðurstaða verði til þess að þær mæðgur fái hæli á Íslandi. 

Mál Torpikey og Maryam hefur vakið nokkra athygli - til að mynda fjallaði Kastljós um þær mæðgur í þætti sínum 24. ágúst síðastliðnum.  Þar kom meðal annars fram að hópur íslenskra kvenna hefði lagt þeim lið og sent meðal annars kærunefndinni ítarlegt erindi þar sem þess var óskað að fjallað yrði um mál þeirra.

Magnea sagði í samtali við Fréttatímann í haust að ef mæðgurnar yrðu sendar aftur til Afganistan væri alveg eins hægt að senda þær út í opinn dauðann. „Hlutskipi kvenna, sem tilheyra hópum sem eru ofsóttir af ISIS og lenda í klóm þeirra, er kynlífsánauð og dauði. Það að senda þær mæðgur til baka til Afganistan undir þessum kringumstæðum getur jafngilt því að senda þær út í opinn dauðann, í óeiginlegum og eiginlegum skilningi, og gengur þvert á öll verndar- og mannúðarsjónarmið“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi