Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gerir stærðfræðikennslu myndrænni

14.10.2017 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Menntavísindastofnun
Hugbúnaðurinn GeoGebra hefur nýst afar vel í stærðfræðikennslu á öllum skólastigum segir dósent við Háskóla Íslands. Kennarar frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndum fjalla nú um reynsluna á ráðstefnu ásamt höfundi hugbúnaðarins. 

Hægt hefur verið að gera stærðfræðikennslu myndrænni en áður með hugbúnaðinum GeoGebra sem notaður hefur verið hér á landi í nokkur ár. Milljónir nota hugbúnaðinn nú við nám. Ráðstefna um hugbúnaðinn stendur nú yfir á menntavísindasviði Háskóla Íslands á vegum notenda búnaðarins á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. 

Höfundur Geogebra hugbúnaðarins, Markus Hohenwarter stærðfræðiprófessor við Kepler háskólann í Linz í Austurríki, segir hugbúnaðinn gerðan til að gera kennslu og nám auðveldara og skemmtilegra. GeoGebra geri kleift að sjá verkefnin og dæmin myndrænt. Í stærðfræði sé oft vandinn að erfitt er að skilja hana og sjá fyrir sér en hægt sé að nota GeoGebru til að gera tilraunir og leika sér með stærðfræðina. 

Markús telur að notendur séu 30 milljónir víða um heim en hugbúnaðurinn er til á 60 tungumálum. Hugbúnaðurinn er ókeypis.

Freyja Hreinsdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ, sem hafði forgöngu um að innleiða hugbúnaðinn hér segir hann notaðan á öllum skólastigum og að með notkun hans hafi nemendur orðið virkari og sjálfstæðari:  „Við erum búin að vera að kenna kennaranemum á þetta síðan 2009 og það eru margir að nota þetta og segja yfirleitt að nemendur séu mjög ánægðir, lifna við. Nemendur sem ekki eru mjög áhugasamir kannski hafa áhuga á því að vinna svona.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV