Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Gerður er sko mín kona í ljóðagerð“

Mynd: RÚV/Forlagið / RÚV/Forlagið

„Gerður er sko mín kona í ljóðagerð“

04.12.2019 - 20:30

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru á einu máli um að Gerður Kristný sé á heimavelli í nýrri ljóðabók sinni sem nefnist Heimskaut og að henni bregðist ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Þau eru þó einnig sammála um að hægt væri að gera ljóðin aðgengilegri fyrir lesendur með því að tilgreina í hvaða forn- og goðsögur höfundur vísar í hverju ljóði.

Gerður Kristný sendi frá sér nýja ljóðabók fyrir þessi jól en sú nefnist Heimskaut og er níunda ljóðabók höfundar. Í bókinni í fer ljóðmælandi í heimskautaferðir í blíðri og óblíðri náttúrunni og segir frá sögulegum atburðum á Íslandi í myrkri og kulda. Gagnrýnendur Kiljunnar, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sverrir Norland, fjölluðu um ljóðabók Gerðar og stundi sú fyrrnefnda af ánægju bara við að horfa á kápuna. „Ó, já. Gerður er sko mín kona í ljóðagerð. Þetta er eðalskáldskapur eins og maður gerir kröfu til þegar hún á í hlut og hún er alveg í essinu sínu þarna þar sem hún lýsir dimmu og kulda,“ segir Kolbrún dreymin.

Í ljóðunum má greina ýmsar vísanir í fornsögurnar íslensku og goðafræðina. Sverrir segir að höfundur geri þetta mjög vel en bætir þó við að stundum sé svo djúpt á vísununum að maður þurfi að vera nokkuð vel á sér til að kveikja á þeim. Kolbrún leggur til að bætt verði við örlítilli klausu í lok hvers ljóðs þar sem fram komi um hvað sé ort hverju sinni. „Það myndi gera ljóðin aðeins aðgengilegri að bæta við undir lokinn: „Hér er ort um Gunnar á Hlíðarenda og bræður hans,“ til dæmis. Ekki nema ein eða tvær setningar,“ segir hún og Sverrir tekur undir. „Það væri gaman fyrir okkur sótsvartan almúgann að hafa skýringar aftast. Mér finnst reyndar ekki koma að sök þó maður kveiki ekki á öllum vísununum því myndirnar eru svo skýrar,“ segir hann þó. „Það er eitthvað dularfullt þarna sem svífur yfir vötnum og má segja að henni bregðist ekki bogalistin. Hún er algjörlega á heimavelli, er ekki að gera neitt nýtt í rauninni, en fyrir hvern þann sem kann að meta ljóðin hennar er þetta góður skammtur.“

Sverrir Norland og Kolbrún Bergþórsdóttir fjölluðu um Heimskaut í Kiljunni.