Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gerðu líkan af Holuhrauni í þrívídd

11.05.2015 - 10:48
Nokkur hundruð loftmyndir, teknar úr ómönnuðu loftfari, gerðu fyrirtækinu Svarma kleift að gera þrívítt líkan af eldstöðvunum í Holuhrauni. Myndirnar voru teknar 18. mars, rétt rúmlega tveimur vikum eftir að gosinu í Holuhrauni lauk.

Á vefsíðu Svarma kemur fram að alls var flogið átta sinnum yfir Holuhraun og nokkrir ferkílómetrar hraunsins kortlagðir. Verkefnið var unnið fyrir Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Markmið þess er sagt vera að mæla rúmmál og þykkt hrauns og hæð myndana á yfirborði auk þess að þróa aðferðir við gerð þrívíddarlíkana.

Hraunið er á stærð við Reykjavík, 84,1 km² alls, og flogið var yfir nyrsta hluta hraunsins, gígana á sjálfri gossprungunni og suðausturhlutann við Jökulsá á Fjöllum.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV