Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Gera þætti byggða á bókum Yrsu

Mynd með færslu
 Mynd:

Gera þætti byggða á bókum Yrsu

09.12.2013 - 17:13
Undirbúningur er hafinn að gerð sjónvarpsþátta byggðum á sakamálasögum Yrsu Sigurðardóttur. Sigurjón Sighvatsson hyggst framleiða þættina, og hefur fengið til liðs við sig leikstjóra og meðframleiðanda að vinsælu, norrænu sjónvarpsefni.

Dönsku sjónvarpsþáttaraðirnar um Brúna og Glæpinn hafa hlotið mikið lof og verið sýndir víða um heim. Danski leikstjórinn Kathrine Windfeld hefur leikstýrt þáttum í röðunum, og sjónvarpsmyndum um Wallander lögregluforingja. Hún hefur tekið að sér að leikstýra fimm þátta sjónvarpsþáttaröð, byggðri á bókum Yrsu Sigurðardóttur um lögmanninn Þóru Guðmundsdóttur. Þættirnir yrðu á ensku, en teknir upp á Íslandi. Framleiðandi er Sigurjón Sighvatsson, ásamt meðframleiðanda sem hefur framleitt Brúna, Glæpinn og kvikmyndir byggðar á Millenium-þríleik Stieg Larssons.

Sigurjón segir sögurnar um Þóru henta vel í sjónvarpsþætti, með óvenjulegri og sterkri söguhetju. „Og svo er alltaf lagt upp úr því að söguþráðurinn sé spennandi og sterkur, og það er það sem heillaði mig við þetta.“

Drög að handritum fyrstu þáttanna liggja fyrir, og breskar sjónvarpsstöðvar hafa sýnt þeim talsverðan áhuga. „Eins alþjóðlegir dreifiaðilar, sem hafa mest dreift bandarísku efni en hafa séð það sem er að gerast með skandinavískt efni og hafa sýnt þessu mikinn áhuga.“

Enn er þó óvíst um fjármögnun, en Sigurjón telur það kosta einn og hálfan milljarð króna að framleiða fimm þátta röð. Hann vonast til að tökur geti hafist næsta haust.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Yrsa best að mati Sunday Times