Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gengur lengra en loforðin fyrir kosningar

04.04.2018 - 19:44
Fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gengur lengra en nokkur stjórnmálaflokkur lofaði fyrir síðustu Alþingiskosningar, segir forsætisráðherra. Auknar tekjur ríkissjóðs og lækkuð vaxtabyrði gefur tækifæri til að byggja upp innviði og mikilvæga málaflokka, segir fjármálaráðherra.

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna kynntu fjármálaáætlunina í Arnarhváli klukkan hálffimm. Grunnur hennar er að staða ríkissjóðs er traustari en verið hefur um árabil. Landsframleiðsla hefur aldrei verið meiri. Lækkun skulda næst hraðar en gert var ráð fyrir. Og bætt staða gerir kleift að ráðast í uppbyggingu innviða og auka framlög til ýmissa mikilvægra málaflokka, segir í kynningu með áætluninni. 

Fjárfestingar í innviðum nema 338 milljörðum króna út árið 2023. Helstu verkefni eru meðal annars bygging nýs Landspítala við Hringbraut, bygging Húss íslenskra fræða, uppbygging innviða á ferðamannastöðum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila. 

„Ég held hins vegar að þessi áætlun sýni svo ekki verður um villst að þessari ríkisstjórn er mikil alvara með því sem fram kom í stjórnarsáttmálanum, það er að segja að við eigum að nýta það svigrúm sem við höfum, þá efnahagslegu hagsæld sem við höfum notið hér á undanförnum árum til þess að byggja hér upp samfélagsleg gæði í þágu almennings í landinu. Og ég leyfi mér að benda á að það sem er boðað þarna gengur í raun og veru miklu lengra en nokkur flokkur lofaði fyrir síðustu kosningar þegar kemur að styrkingu samneyslunnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.  

Vegakerfið fær aukin framlög, segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra:

„Á árunum '19 til '21 ætlum við að fara í sérstakt átak þar sem við ætlum að nýta svona óreglulegar arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjunum sem að nema þá 16 og hálfum milljarði samtals á þessum árum til þess að hefja svona hraðari uppbyggingu á vegamálunum enda veitir ekki af, vegirnir víða ónýtir. Og eftir þennan slæma vetur þá erum við jafnframt að skoða hvort við getur spýtt í strax á þessu ári.“

Hann segist ánægður með að gert sé vel í öllum málaflokkum og í samræmi við það sem lagt var upp með í nóvember þegar ríkisstjórnin var mynduð: 

„Tilgangurinn var að fara í sameiginlega sýn þessarra ólíku flokka á uppbyggingu innviða og mér finnst þessi fjármálaáætlun rýma vel við það.“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að mikil uppgreiðsla skulda og meiri landsframleiðsla hafi skapað meiri tekjur og lækkað vaxtabyrði ríkissjóðs: 

„Þetta tvennt skapar svigrúm fyrir nýjar áherslur. Við ætlum að nýta svigrúmið til þess að fara í innviðafjárfestingu og styðja betur við mikilvægustu málefnasvið þessarar ríkisstjórnar.“

Hvenær verður aukin gjaldtaka á ferðamenn?

„Ja, við höfum ekkert ákveðið ennþá með útfærsluna en við erum að gera ráð fyrir því að frá árinu 2020 verði komið til framkvæmda nýtt kerfi sem að við ætlum að nýta tímann vel til þess að ákveða.“

Forsætisráðherra segir að svigrúm sé til þess að auka bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Nú standa kjaraviðræður fyrir dyrum. Telur hún að aðilar vinnumarkaðarins verði ánægðir með þessa áætlun?

„Ég veit svo sem ekkert hvort aðilar vinnumarkaðarins verði ánægðir með áætlunina enda er mikið samtal framundan á árinu, þar sem við þurfum að ræða miklu betur útfærslu ýmissa mála.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV