Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gengu í gegnum helvíti á jörðu en fengu enga hjálp

Mynd: ghansson / ghansson

Gengu í gegnum helvíti á jörðu en fengu enga hjálp

03.03.2020 - 14:57

Höfundar

Bernd Ogrodnik, einn af fremstu brúðuleikhúsmönnum samtímans, vill rjúfa vítahring þagnar í nýju brúðuverki sem frumsýnt verður 7. mars í Þjóðleikhúsinu. Verkið er hans persónulegasta hingað til, en það hefur tekið hann 15 ár að koma því á fjalirnar.

Brúðumeistarinn fjallar um Gunther, brúðugerðamann, sem kom til Íslands fyrir um það bil 40 árum, til að flýja Þýskaland og þau áhrif sem eftirstríðsárin höfðu á hann og kynslóð foreldra hans. „Hann hefur það gott á Íslandi þangað til að draugar fortíðarinnar byrja að banka á dyrnar hjá honum. Ég kalla það þýska bakpokann. Bakpoki sem er fullur af dóti sem maður fær afhendan frá foreldrunum,“ segir Bernd.

Foreldrar Bernds féllu bæði frá á síðasta eina og hálfa ári. „Þau gengu í gegnum ótrúlega erfiðleika, helvíti á jörðu, maður getur ekki kallað það annað, en fengu enga hjálp. Áfallahjálp var ekki til á þeim tíma.“ Bernd segir að fólk hafi verið fullt af reiði og skömm en það var aldrei rætt. Hann segir að ef fólk fær ekki hjálp til að vinna úr svona erfiðri reynslu, eins og seinni heimsstyrjöldinni, þá fylgir hún þvi áfram og færist niður til næstu kynslóða.

Hræðileg lífsreynsla

Bernd segir að foreldrar hans hafi nánast ekkert talað um þeirra reynslu í styrjöldinni, móðir hans fór til dæmis alltaf að gráta ef þetta bar á góma. Hún lenti í sprengjuárásum þar sem hún varð vitni að mannfalli og reyndi meðal annars að hjálpa konu að komast ofan í neðanjarðarbyrgi í loftáras, en náði því ekki. Svo sá hún konuna látna að árásinni lokinni.

Brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik
 Mynd: Bernd Ogrodnik

Faðir Bernds var hermaður í stríðinu, aðeins 16 ára, og týndist meðal annars eftir orrustu. Foreldrar hans töluðu aldrei um það og hann hefði líklega aldrei komist að því nema af því að hann fann bréf sem liðsforingi skrifaði ömmu hans um það. Þessi föðuramma Bernds var svo myrt af þýskum nasistum fyrir það eitt að vera andlega veik.

Pabbi minn var hommi

Það var svo annað mál sem aldrei var rætt á sínum tíma, að faðir Bernds var samkynhneigður. Hann þurfti að leyna því alla tíð, vegna hættu á að vera handtekinn og jafnvel sendur í útrýmingarbúðir. 

Brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik
 Mynd: Bernd Ogrodnik

Bernd vill reyna, til dæmis með þessari sýningu, að rjúfa þennan vítahring þagnar og tala um þessa reynslu þjóðar sinna og foreldra. Til þess að losa yngri kynslóðirnar undan afleiðingunum svo þau þurfi ekki að burðast með skömm og reiði foreldranna um ókomna tíð.

Viðtalið við Bernd Ogrodnik má hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Leiklist

Kominn tími til að leggja frá sér „þýska bakpokann“

Leiklist

Fegurð yst sem innst í Þjóðleikhúsinu