Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gengið á höfuðstól jarðar

17.08.2015 - 16:15
Mynd: ?? / pixabay.com
Samtökin Global Footprint Network reikna árlega út svokallaðan „yfirdráttardag“. Það er sá dagur ársins sem mannkynið er búið að eyða þeim auðlindum sem jörðin getur staðið undir á einu ári. Sá dagur var síðastliðinn föstudag og rann upp sex dögum fyrr en í fyrra.

Ef mannkynið heldur áfram á sömu braut er gert ráð fyrir að yfirdráttardagurinn árið 2030 verði 28. júní. Þá verður staðan orðin sú að á hálfu ári verður búið að nota það sem jörðin gefur af sér á heilu ári. „Það má orða það þannig að við munum þurfa tvær jarðir til að komast af,“ segir Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur í Samfélaginu á Rás 1.

Stór loftlagsráðstefna fer fram í París í desember og binda margir vonir við að þar náist samkomulag um að þjóðir heims dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stefán segir að ef dregið yrði úr losun um 30% myndi það, eitt og sér, fresta yfirdráttardeginum 2030 frá 28. júní til 16. september.

Ekki endalaust hægt að ganga á höfuðstólinn

Yfirdráttardagurinn í ár var 14. ágúst, en hvaðan fær mannkynið það sem upp á vantar það sem eftir lifir árs? „Það fáum við úr óendurnýjanlegum auðlindum, úr náttúruauði sem er til staðar og hefur byggst upp á milljónum ára og við erum smátt saman að ganga á hann,“ segir Stefán.

Hann líkir náttúruauðnum við sparisjóðsbók sem við fengum í arf frá ömmu okkar. Þann 14. kláraðist kaupið sem við fengum útborgað fyrir árið og nú séum við að taka út af bókinni hennar ömmu. „En það er þannig með allar sparisjóðsbækur að þær tæmast ef maður tekur bara út af þeim og leggur aldrei inn á þær.“

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður