Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gekk af velli vegna kynþáttaníðs

Mynd: EPA-EFE / LUSA

Gekk af velli vegna kynþáttaníðs

17.02.2020 - 04:22
Moussa Marega, leikmaður Porto í portúgölsku úrvalsdeildinni í fótbolta, gekk af velli í miðjum leik liðs síns gegn Vitoria Guimaraes í gærkvöld. Marega varð fyrir kynþáttaníði frá áhorfendum, sem öskruðu eins og apar á hann.

Marega skoraði annað mark Porto á 60. mínútu leiksins sem reyndist sigurmark gestanna. Um tíu mínútum síðar gaf hann merki á varamannabekk liðs síns um að hann ætlaði út af. Liðsfélagar hans reyndu hvað þeir gátu að tala hann ofan af því, sem og þjálfari hans og leikmenn andstæðinganna. Á leiðinni af velli horfði hann í átt til áhorfenda og vísaði báðum þumlum niður. 

Marega, sem lék með Vitoria Guimaraes tímabilið 2016 til 2017, sendi stuðningsmönnum heimamanna kaldar kveðjur á Instagram. Hann sagði þá sem gerðu hróp að honum vera fávita sem mæti á leiki aðeins til þess að vera með kynþáttaníð. „Ég vona að ég sjái ykkur aldrei aftur á fótboltavelli. Þið eruð til skammar," skrifaði Marega á Instagram. 

Sergio Conceicao, þjálfari Porto, sagði leikmenn og starfslið félagsins hneykslað á hegðun áhorfenda. Hann kvaðst vita af ástríðunni í stuðningsmönnum Vitoria, og telur flesta þeirra hegða sér með meiri sæmd en þeir sem níddu Marega. Hann sagði alla vera fjölskyldu, hvert sem þjóðerni, húðlitur eða hárlitur þeirra er. „Við tilheyrum öll mannkyninu, við verðskuldum öll virðingu. Það sem gerðist hér var hryggilegt," sagði Conceicao.

Vitoria birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni að leik loknum þar sem segir að ofbeldi og fordómar eigi ekki heima í íþróttum. Þar segir að farið verði í saumana á því sem gerðist í áhorfendastúkunni í samstarfi við yfirvöld. Einnig er tekið fram að félagið styðji ekki við yfirlýsingu forseta þess, Miguel Pinto Lisboa, sem sagði Marega hafa æst stuðningsmenn upp með hegðun sinni. Hann fordæmdi þó einnig hegðun stuðningsmannanna.

Fernando Gomes, forseti portúgalska knattspyrnusambandsins, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði kynþáttaníð ólíðandi í opnu og þróuðu samfélagi. Hann vill að þeir sem gerðu hrópin verði fundnir og sóttir til saka. Gomes segir knattspyrnusambandið standa með Moussa Marega gegn kynþáttafordómum.