Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Geitungarnir komnir til að vera“

16.07.2016 - 17:23
Mynd: Magni Þór Konráðsson / RÚV
Meindýraeyðirinn Magni Þór Konráðsson lenti í því óvenjulega atviki að fjarlægja geitungabú af svefnherbergisglugga. Erfitt er fyrir geitunga að gera sér bú á gluggum enda eru þau vanalega fjarlægð við fyrsta tækifæri. Konan sem þar bjó hafði aldrei dregið gardínuna nógu langt upp til þess að sjá búið. Magni náði myndbandi af búinu áður en hann fjarlægði það. „Geitungarnir eru komnir til að vera,“ segja meindýraeyðar.

Á myndbandinu sést þegar flugurnar eru að færa lirfunum fæði. Flugurnar veiða skordýr og stinga þau og lama með eitri. Skordýrin drepast þó ekki enda vilja lirfurnar bara lifandi fæði. 

Konráð Þór Magnússon, meindýraeyðir hjá Firringu, man eftir einu svona stóru búi á glugga á tuttugu ára starfsferli. Fólk sjái það oftast strax og nái yfirleitt að skafa það fljótt af glugganum. Fram undan sé tími geitunga en síðustu tvö ár hefur lítið sem ekkert verið um geitunga. Í ár sé staðan öðruvísi. Vorið hafi verið hlýtt og sumarið gott fyrir öll skordýr. 

Þessar spár skordýrafræðinga um að geitungurinn sé að verða útdauður er aldrei hægt að staðfesta. Geitungurinn er kominn til að vera.

Mikilvægast er að muna að ónáða ekki geitunga að óþörfu. Geitungar séu stórhættuleg kvikindi og sumir fái bráðaofnæmi við stungum þeirra. Almennt séu þeir þó friðsamir og ráðist ekki á fólk af fyrra bragði, segir Konráð. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV