Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Geir segir Seðlabankann ábyrgan

19.10.2016 - 18:39
Islands statsminister Geir H Haarde. Nordisk-baltiskt statsministermöte. Nordiska Ministerrådets session i Köpenhamn. 2006-10-30. Foto: Magnus Fröderberg/norden.org
 Mynd: Magnus Fröderberg - Norden.org
Forsætisráðherra á ekki að þurfa að sæta því að embættismenn ríkisins hljóðriti samtöl við hann án hans vitundar. Þetta segir Geir H Haarde um þá frásögn starfsmanns Seðlabankans að tilviljun hafi ekki ráðið því að Davíð Oddsson hljóðritaði samtal þeirra. Leggst enn gegn birtingu þess. Seðlabankinn hafi borið ábyrgð á láninu, þó hann hafi talið það tilraunarinnar virði. Vonbrigði að veð sem Seðlabankinn taldi trygg, skyldu ekki duga fyrir láninu.

Geir hafnar því að hafa haft úrslitavald eða lokaákvörðun um 500 milljón evra lán Seðlabankans til Kaupþings þann 6. október 2008. Starfsmaður Seðlabankans sem viðstaddur var þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri hringdi í Geir á hádegi umræddan dag, segir Davíð hafa sagt ákvörðun um lánið hafa verið Geirs. Ennfremur að Davíð hafi sagt Geir að lánið fengist ekki greitt til baka. 

Valdið var Seðlabankans

Orðrétt segir Geir það aldrei hafa verið sinn skilning að tilgangur símtalsins hafi verið að leita ákvörðunar forsætisráðherra um hvort lánið yrði veitt eða ekki: 

„Mér var alla tíð ljóst að lögum samkvæmt fór Seðlabankinn með valdið til að veita þrautavaralán en ekki forsætisráðherra. Það var hins vegar ekki óeðlilegt að seðlabankastjóri hefði samráð við forsætisráðherra við þessar óvenjulegu aðstæður."

Um lánið sem slíkt segir Geir að hann hafi talið rétt að gera lokatilraun til að bjarga stærsta banka landsins:

„Hefði það heppnast hefði vandinn sem við var að glíma verið af annarri stærðargráðu og mun viðráðanlegri miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu. Þegar Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlánið lá fyrir að Kaupþing gat lagt fram veð sem var umfram lánsupphæðina- svokallað allsherjarveð sem náði þar með einnig til annarra skulda bankans við Seðlabankann. Þetta veð var FIH bankinn í Danmörku. Seðlabankinn kannaði það sérstaklega hjá Seðlabanka Danmerkur hvort þetta veð væri ekki örugglega traust og fékk skýr svör um að svo væri,“ sagði í skriflegu svari Geirs til Kastljóss.

Tapið vonbrigði

Annað hafi svo komið á daginn þegar Seðlabankinn hafði verið búinn að tapa láninu og hafði gengið að veðinu. Eignast FIH-bankann danska. Sala á bankanum árið 2012 dugði ekki fyrir láninu sem veitt var Kaupþingi. Talið er að næstum helming upphæðarinnar hafi vantað upp á, en tapið var talið nema um 35 milljörðum króna. 

„Það voru síðan mikil vonbrigði þegar í ljós kom síðar er selja átti FIH bankann að veðið reyndist ekki eins verðmætt og talið hafði verið. En það er annað mál og á því eru skýringar sem Seðlabankinn hefur gert ágætlega grein fyrir."

Seðlabankinn taldi veðið tryggt

Spurður nánar út í símtal hans og Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, og hvort framburður Sturlu Pálssonar í yfirheyrslum hjá Sérstökum saksóknara, þess efnis að Davíð hefði sagt að peningarnir sem lána ætti fengjust ekki til baka, segir í svari Geirs:

„Seðlabankastjóri tjáði mér að óvíst væri um endurheimtur. Það kom ekki á óvart í ljósi þess að um neyðarlán var að ræða. Þá skiptir öllu máli að hafa tryggt veð eins og Seðlabankinn taldi að væri í þessu tilfelli, þ.e. FIH bankinn í Danmörku. Engum gat dottið í hug að lána Kaupþingi stórfé án veðs vitandi að aldrei fengist neitt endurgreitt enda hefði það verið brot á lögum um Seðlabankann."

Ekki vilji ríkisstjórnarinnar

Geir kannast ekki við að hafa tjáð stjórnendum Kaupþings að það væri vilji ríkisstjórnarinnar að Seðlabankinn veitti þeim neyðarlán. Bréfritari Reykjavíkurbréfs, sem vísast er talið að hafi verið fyrrverandi seðlabankastjóri, lýsti því að ein ástæða lánveitingarinnar hafi verið fullyrðingar Kaupþingsmanna í samtölum við Seðlabankann, þess efnis að ríkisstjórnin hefði lýst yfir vilja til þess að Kaupþingi yrði veitt slíkt lán.

Embættismenn hljóðriti ekki með leynd

Geir segir það einnig af og frá að ákvörðunin um lánið hafi verið hans. Spurður um það sem Sturla segir um að Davíð Oddsson hafi ákveðið að hringja í Geir úr síma Sturlu einmitt vegna þess að þá yrði samtalið hljóðritað, segir Geir:

„Mér var ekki kunnugt um að símtalið hefði verið hljóðritað og frétti ekki af því fyrr en löngu síðar. Um tilganginn með því get ég ekki fullyrt. En forsætisráðherra landsins - hver sem hann er - á ekki að þurfa að sæta því að embættismenn ríkisins hljóðriti símtöl við hann án hans vitundar."

Spurður hvort upplýsingar um framburð Sturlu og frásögn af símtalinu nú breyti fyrri afstöðu hans til birtingar símtalsins, sagði Geir svo ekki vera: 

„Símtalið var ekki tekið upp með minni vitund og verður af þeim sökum ekki birt með mínu samþykki.“

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV