Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Geir Haarde áfram ákærður

28.02.2012 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lauk nú rétt fyrir hádegi en hann hafði þá staðið frá því klukkan níu í morgun, með hléum. Meirihluti nefndarinnar afgreiddi tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru á hendur Geir Haarde með því að leggja til að henni verði vísað frá.

Bjarni Benediktsson mælti fyrir tillögu sinni 20. janúar og síðan þá hefur hún verið til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Valgerður Bjarnadóttir formaður nefndarinnar hefur ítrekað bent á að tillagan ætti ekki að daga uppi í nefndinni þrátt fyrir að ekki sé meirihluti fyrir henni þar.

Rétt fyrir hádegi náðist hins vegar niðurstaða í málið með því að meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar leggur til að tillögunni verði vísað frá. Til vara leggur meirihlutinn til að tillaga um afturköllun ákæru verði felld.

Verði tillaga meirihlutans samþykkt þýðir það að ákæra gegn Geir Haarde fyrir landsdómi stendur.

Aðalmeðferð í máli Geirs fyrir landsdómi á að hefjast í þjóðmenningarhúsinu næstkomandi mánudag 5. mars klukkan 9. Byrjað verður á vitnaleiðslum en vitnalistinn í málinu hefur enn ekki verið gerður opinber.

Í næstu viku eru nefndadagar á Alþingi og því er viðbúið að síðari umræða og atkvæðagreiðsla um tillögu Bjarna Benediktssonar fari fram á Alþingi á morgun og hinn.