Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Geimáætlun Kínverja

02.12.2013 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverjar hafa verið duglegir að hnykla vöðvana á ýmsum sviðum til að sanna sig sem risaveldi. Það er ekki bara í lofti, láði og sjó - Kínverjar horfa út í geim.

Kínverjar skutu geimflauginni Chang þremur á loft í morgun að kínverskum tíma. Kínverska ríkissjónvarpið sýndi geimskotið í beinni útsendingu og allt gekk að óskum. Þetta er liður í mjög metnaðarfullri geimáætlun Kínverja. Að þessu sinni er flaugin ómönnuð og er gert ráð fyrir að hún lendi á norðanverðu tunglinu um miðjan desember. Um borð er tæknilega fullkominn könnunarbíll sem heitir Yutu eða kanínan. Þetta er í þriðja sinn í sögunni sem könnunarbíll er sendur til tunglsins en þessi er sá fullkomnasti. Hann er meðal annars búinn afar fullkomnum tækjum til að mæla og meta yfirborð tunglsins og efnasamsetningu. Geimbíllinn Kanína er hundrað og tuttugu kíló, sex hjóla tryllitæki sem getur klifið þrjátíu gráða halla og ferðast tvö hundruð metra vegalengd á klukkustund. Þrjár og hálf milljón Kínverja valdi nöfn á flaugina og könnunarfarið en nöfnin eru dregin af fornri kínverskri goðsögn um tunglgyðjuna Chang og gæludýr hennar, kanínuna.

Yfirmaður geimferðaáætlunarinnar segir þetta afar stórt skref í metnaðarfullum áætlunum Kínverja. Þróaður hafi verið afar flókinn búnaður sem nú verði prófaður. Kínverskir vísindamenn öðlist ómetanlega reynslu sem nýtist í frekari og fyrirhuguðum rannsóknum í geimnum. Áfangastaðurinn nú er Sinus Iridum eða Regnbogaflói á norðanverðu tunglinu. Hann þykir hentugur til rannsókna, svæðið er flatlent og lítið um stórgrýti. Þetta er hluti af stærra svæði sem nefnist Mare Imbrium sem sumir þekkja sem hægra augað í karlinum í á tunglinu. Nákvæmar upplýsingar fást ekki um þá tækni sem notuð verður en ljóst virðist að geimbíllinn sé hlaðinn stórum sólarrafhlöðum og afar flóknu hitakerfi úr plútóníum til að halda hita á tækjunum á nístingsköldum tunglnóttum. Bandarískir geimvísindamenn hafa líka bent á að lendingarbúnaðurinn sé mun stærri en þurfi fyrir ómannað könnunarfar og því líklegt að hann sé til að undirbúa jarðveginn fyrir mannað tunglfar síðar. Sérfræðingar segja að þessi leiðangur marki þáttaskil í geimrannsóknum Kínverja og þeir geti aflað mikilvægra upplýsinga og undirbúið nýtingu á sjaldgæfum málmum tunglsins.

Þessi tunglferð kemur á sama tíma og Kínverjar hafa verið að gera sig gildandi sem helsta risaveldi í Asíu og það ríki sem að öllum líkindum verður helsta risaveldi heims í komandi framtíð. Skemmst er að minnast ákvörðunar þeirra um kínverskt loftrými sem nær yfir svæði og eyjar sem aðrar þjóðir telja sig eiga. Kínverjar líta á geimferðaáætlun sína sem tákn um vaxandi styrk þeirra á öllum sviðum og ekki síður til að sýna árangur kommúnistaflokksins í að breyta fátækri þjóð í forysturíki heimsins. Ouyang, yfirmaður geimferðaáætlunar Kínverja, hefur sagt við Dagblað alþýðunnar að áætlunin sé öðrum þræði liður í að sýna styrk kínverska ríkisins, gera sig gildandi á alþjóðavettvangi og auka samstöðu þjóðarinnar.

Næstu skref þeirra felast í að safna sýnum og verðmætum málmum og færa til jarðar. Yfirmenn geimferðaráætlana Kínverja fullyrða að stutt sé í að Kínverjar sendi mannaðar geimflaugar til tunglsins. Það verður þá í fyrsta sinn sem menn eru sendir til tunglsins, frá Appolóáætlun Bandaríkjanna á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Kínverjar hafa metnaðarfull markmið um að koma upp risavöxnum sólarrafhlöðum fyrir námavinnslu í stórum stíl til að nýta fágætar auðlindir eins og títan og úran. Auðlindir sem eru af skornum skammti á jörðinni en gnótt er af á tunglinu. Kínverjar telja gríðarlega möguleika fólgna í nýtingu helíums og sólarorku mannkyninu til heilla. Helíum er hægt að nota sem eldsneyti fyrir kjarnasamruna og Kínverjar telja að með því sé hægt að leysa orkuþörf mannkynsins til að minnsta kosti næstu tíu þúsund ára. Það er ljóst að Kínverjar hugsa stórt og þeir hugsa langt fram í tímann.