Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Gegnumsýrt af útlendingaótta“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Gegnumsýrt af útlendingaótta“

19.11.2015 - 15:14

Höfundar

„Ef við berum saman skóflu og skurðgöfu, þá er það raunin,“ segir Páll Baldvin Baldvinsson, höfundur bókarinnar Stríðsárin 1938-1945, aðspurður um hvort Ísland hafi gerbreyst á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

„Ísland stekkur frá því að vera fátækasta eymdarbæli í Evrópu yfir í að skynja það að það er hægt að hafa nóga vinnu, það er hægt að fá peninga fyrir vinnuna og það er hægt að hafa nóg að borða. Okkar týpa af samfélagi verður til þarna, og það er amerískt samfélag fyrst og fremst. Og við höfum verið að reyna að fullvinna þann draum síðan að við séum amerískt allsnægtasamfélag.”

Breið mynd af íslensku samfélagi

Í bókinni eru um 3000 ljósmyndir, en bókin er 1100 blaðsíður og stór eftir því. Þetta er ekki bara saga hernaðarátaka og stjórnmála heldur er reynt að draga upp breiða mynd af íslensku samfélagi, líka kjörum og lífsháttum almennings.

„Við reynum að gera grein fyrir stöðu kvenna, í öllum skrifum á þessum tímabili eru konur faldar og hvað eigum við að gera fyrir blessuð börnin og unglingana, hvernig eigum við að draga fram þeirra hag sem er meira og minna falinn,“ segir Páll Baldvin.

Útlendingaótti og gyðingahatur

Í fyrri hluta bókarinnar, í aðdraganda styrjaldarinnar, er mikið fjallað um flóttamenn sem reyna að komast til Íslands en er langflestum synjað um landvist. Um þetta voru miklar deilur og það er merkilegt að sjá tóninn í sumum dagblaðanna:

„Samfélagið á Íslandi var gegnumsýrt af útlendingaótta og gyðingahatri, svo við segjum það algjörlega umbúðalaust. Hingað var fólk að reyna að komast til að bjarga lífi sínu, er að sækja um leyfi til að komast hingað en það fær allt saman nei.“

Þúsundir erlendra manna drukknuðu á miðum Íslands

Um margt fleira er fjallað í bókinni, þar má nefna hinar miklu siglingar bandamanna meðfram Íslandi og geysilegt manntjón sem fylgdi þeim. Þetta var þó að nokkru leyti hulið vegna ritskoðunar, Íslendingar vissu ekki alltaf af því hversu geigvænlegir atburðir voru að gerast við landið:

„Sama dag og Goðafoss fer niður þá eru tvö önnur skip sem fara niður, þannig að það eru ekki bara Íslendingar sem eru að drukkna á miðunum hér í kringum landið heldur eru það þúsundir erlendra manna. Ritskoðun var í gildi og þetta komst ekki í fjölmiðla, en þó fór ekki hjá því að almenningur yrði var við þetta.”