Gefur moltu þar sem hún selst ekki

03.06.2019 - 09:23
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Lífræn kraftmolta er framleidd í Eyjafirði. Hún ætti að seljast upp á hverju ári, segir framleiðandinn, en það gerist ekki og því hefur hann gripið til þess ráðs að gefa hana. Það þarf meira af moltu heldur en tilbúnum áburði og flutningskostnaður á henni því meiri.

Molta úr lífrænum úrgangi hefur verið framleidd á Norðurlandi í áratug. Árleg framleiðsla er tæplega 10 þúsund rúmmetrar en moltan er ekki nýtt sem skyldi því undanfarin ár hafa einungis 10-20% af henni verið nýtt sem jarðvegsbætir. Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu segir að restin af moltunni sé notuð í landmótun og til að slétta jarðveginn í kringum verksmiðjuna. Þegar hún er sett þar sem ekki er þörf á henni stuðlar hún ekki að þeirri bindingu kolefnis sem hún gæti annars gert.

Úrvals jarðvegsbætir

Kristján segir að margar tilraunir hafi verið gerðar með moltuna, bæði hjá Skógræktinni og Landgræðslunni, sem sýni að þetta sé úrvals jarðvegsbætir. Í raun ætti hún að seljast upp á hverju ári. Sú sé ekki raunin og því hefur Kristján gefið moltuna til að koma fólki á bragðið með að nota hana. Þá geti garðeigendur og aðrir sótt sé moltu í þar til gerða moltuhauga hjá Akureyrarbæ. Moltan er framleidd úr lífrænum úrgangi frá Norðurlandi.

Hár flutningskostnaður

Kristján segir að einstaklingar í Eyjafirði séu duglegir að nota moltuna en gagnrýnir áhugaleysi hins opinbera. Hann hafi síðustu ár reynt að fá Landgræðsluna, Skógræktina og fleiri til að nýta hana og þá í stað tilbúins áburðar. Árni Bragason landgræðslustjóri segir að það skorti ekki áhuga á að nota hana því hún sé góð. Stofnuninni sé hins vegar ætlað að nýta þá fjármuni sem hún fær eins vel og hægt er, að binda sem mest kolefni og græða upp sem mest land. Því þyrfti áherslubreytingu hjá stjórnvöldum þar sem moltan kosti meira vegna mikils flutningskostnaðar. 

Það þarf töluvert meira af moltu heldur en tilbúnum áburði, þar sem búið er að þjappa næringarefnunum í litlar kúlur. Samkvæmt heimildum fréttastofu þarf 10-15 sinnum meira af moltunni til að fá sama áburðarmagn.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi