Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Gefur ekki miklar væntingar um framhaldið“

25.01.2020 - 11:54
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Loðnuleit Hafrannsóknastofnunar lauk í gær. Birkir Bárðarson leiðangursstjóri segir að lítið magn af loðnu hafi fundist. „Það að við sáum lítið núna gefur ekki miklar væntingar um framhaldið. En það er þannig með loðnuna að maður spyr alltaf að leikslokum.“

Eitthvað hafi fundist af loðnu vestan við Kolbeinseyjarhrygg og út af Vestfjörðum. „Við sáum aðeins til loðnu fyrir austan og norðaustan land en það var í mjög litlu magni; stakar torfur og hrafl,“ segir Birkir. „Við komumst ekki yfir það svæði sem við hefðum viljað vegna hafíss norðvestur af Vestfjörðum.“ Hafísinn hafi verið kominn um 40 mílur frá Straumnesi. 

Birkir segir að nú verði unnið úr gögnum leitarinnar og því liggi lokatölur ekki fyrir. Magnið sem hafi fundist hafi ekki verið mikið. „Við vinnum úr gögnum á næstu dögum og fáum útkomu úr mælingu. Svo framkvæmum við aðra heildaryfirferð í febrúar. Þá fyrst kemur í ljós hversu áreiðanleg þessi mæling er,“ segir hann, því þá komi í ljós hvort leitarleiðangurinn hafi misst af einhverju í fyrri ferðinni. 

Uppistaðan í hverri vertíð er einn árgangur loðnu, segir Birkir. Vertíðini standi því og falli með hverjum árgangi. Lífsferill loðnu sé þannig að hún hrygnir einu sinni á lífsleiðinni og drepst svo, þá þriggja ára. „Ef staðan er sú að við erum með tvo lélega árganga í röð, eins og nú virðist vera, er það léttir að við höfum þó mælingu síðasta haust sem sýnir ágætar líkur á árgangi fyrir næstu vertíð, sem er 2018 árgangurinn. „Það er ekki öll von úti ennþá með það,“ segir Birkir.  

Næsti leitarleiðangur verður farinn í byrjun febrúar. Niðurstöður mælinga eru notaðar til grundvallar fyrir fiskveiðráðgjöf vetrarvertíðarinnar.