Gef oss í dag vort daglegt „drop“

Mynd með færslu
 Mynd: Daníel Ólafsson

Gef oss í dag vort daglegt „drop“

19.03.2020 - 13:15

Höfundar

Fólk tekur upp á ýmsu til að stytta sjálfum sér og öðrum stundir þegar það neyðist til að hanga heima megnið af deginum. Plötusnúðurinn Daníel Ólafsson, betur þekktur sem Danni Deluxe, hefur tekið upp á því að koma með svokallað „drop“ á hverjum degi, þar sem hann blandar saman tveimur lögum úr mjög ólíkum áttum.

Daníel sinnir nú markaðsmálum fyrir Bláa lónið en hann sleit þó barnsskónum í grjóthörðum hipphopp-kreðsum í Mosfellsbænum. Íslenska sveitaballið virðist þó eiga vísan stað í hjarta hans, en í mörgum af þessum „drop“-um blandar hann þessu tvennu saman. Hér leggur hann til dæmis hóstasaftsdrafandi rödd Lil Wayne yfir skagfirska sveiflu Stjórnarinnar.

Ísfirsk nýbylgja Grafíkur verður líka fyrir barðinu á andlitstattúveraða Suðurríkjatappanum.

„Mig langaði til að gera eitthvað mix þar sem ég tæki harðasta rapp sem ég fann og setti það saman við þekkta íslenska slagara,“ segir Daníel. „Fyrst setti ég drill anthemið I dont like með Chief Keef saman við Hvar er draumurinn með Sálinni og það kom eiginlega bara fáránlega vel út.“ 

Hann prófaði því að setja mixið á Instagram og Twitter þar sem það hlaut góðar undirtektir. „Síðan eftir að fólk fór að vinna meira heima og COVID-19 faraldurinn skall á ákvað ég að blanda saman Guð blessi ísland ræðunni við „chopped and screwed“ útgáfu af laginu Hlið við hlið með Friðriki dór. Þá sprakk þetta svolítið út og myndbandið er komið í 20.000 áhorf og allskonar fólk að stoppa mig og peppa þetta.“

Hér fellur hrunræða Geirs H. Haarde eins og flís við rass Friðriks Dórs.

Hann eftirlætum svo engum öðrum en Erpi Eyvindarsyni að keyra vonina í gang, þó það sé Stjórnin sem stýri ferðinni.

Hér er það svo tveggja stjóra tal, Dóri og Steini.

Droppið í gær var svo tileinkað þeim sem spóla fyrir utan Krónuna úti á Granda, og er mjög svo í anda fegurðakónga Reykjanesskagans og líkamsræktarfrömuða fjarvinnslunnar. Og það er engan bilbug á Daníel að finna sem ætlar að halda áfram að gefa þjóðinni sitt daglegt drop. „Meðan ég hef ennþá gaman og húmor fyrir þessu. Halda vegferðinni áfram og koma þjóðinni í gegnum þessar hremmingar. Ætli þetta endi ekki með því að ég hendi í mix í beinni á blaðamannfundi með Þórólfi og félögum?“

Tengdar fréttir

Tónlist

Söng Í fjarlægð fyrir íbúana í gluggunum

Mannlíf

Grunnskólabörn sungu fyrir eldri borgara

Tónlist

Hefur fengið fjöldan allan af kveðjum frá Ítölum