Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Geðlæknir furðar sig á ummælunum

07.03.2012 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Prófessor í geðlækningum segir sér brugðið í kjölfar skrifa alþingismannsins Þórs Saari um hrottafengna árás á lögmannsstofu í fyrradag. Þingmaðurinn fari frjálslega með staðreyndir og grafi undan trausti á sér.

Þónokkuð hefur verið ritað og bloggað í netheimum í kjölfar hrottalegar árásar á starfsmann lögmannstofunar Lagastoðar í fyrradag. Skrif Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, hafa ekki síst verið umdeild. Þar segir hann voðaverknaðinn óskiljanlegan en bætir svo við hann að hann sé ekki svo undarlegur eða óskiljanlegur í ljósi þess ástands sem hér hafi ríkt í kjölfar hrunsins.

Þá er fullyrt að ótal fjölskyldur hafi splundrast og að ótalmargir hafi svipt sig lífi í örvæntingu vegna erfiðleika tengdra hruninu.

Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum og yfirlæknir á Landsspítalanum, setur spurningarmerki við þessar fullyrðingar Þórs.

„Ég verð að viðurkenna að mér var nokkuð brugðið því þarna er það alþingismaður sem heldur á penna og fer frekar frjálslega með staðreyndir. Hann segir í þessu bloggi meðal annars að ótal einstaklingar hafi tekið líf sitt og gefur það til kynna að það hafi orðið mikil aukning á sjálfsvígum núna í kjölfar kreppunar. „

Engilbert bendir í því samhengi á tölulegar upplýsingar Hagstofunnar og lögreglu um að sjálfsvígum hafi ekki fjölgað eftir hrun. Það sama eigi við um bráðainnlagnir. Þá hafi neyðarúrræðum sem Landspítalinn hafi sett af stað í kjölfar hrunsins verið sjálfhætt vegna fárra tilfella.

„Sá sem að er með staðhæfingar á borð við þessar og setur fram svona staðhæfingar og situr á Alþingi, hlýtur að vera að grafa undan trausti sínu sem alþingismaður.“