Gavin DeGraw með tónleika á Íslandi í ágúst

Mynd með færslu
 Mynd:

Gavin DeGraw með tónleika á Íslandi í ágúst

18.03.2020 - 12:31

Höfundar

Bandaríski tónlistarmaðurinn Gavin DeGraw verður með tónleika í Silfurbergi í Hörpu 17. ágúst. DeGraw heldur í tónleikaferð til Norðulanda og Hollands í ágúst og eru tónleikarnir á Íslandi þeir síðustu í ferðinni. Margir kannast við DeGraw eftir að lög með honum slógu í gegn í sjónvarpsþáttunum One Tree Hill.

Gavin DeGraw skaust upp á stjörnuhimininn þegar að lag hans, I Don’t Want to Be, var titillag bandarísku sjónvarpsþáttanna One Tree Hill sem nutu mikilla vinsælda. Lagið var á hans fyrstu breiðskífu Chariot sem seldist í rúmlega milljón eintökum í Bandaríkjunum og flokkast því sem platínumplata. Þrjú lög af plötunni náðu einnig gullsölu en auk I Don’t Want to Be eru það lögin Chariot og Follow Through. Í kjölfar útgáfu plötunnar varð einnig afar vinsælt á meðal keppenda American Idol að reyna að heilla dómnefndina auk áhorfenda með að syngja ábreiður af lögum DeGraw. 

Eftir útgáfu Chariot var mikið að gera hjá DeGraw í tónleikahaldi og hann fór um allan heim og kom fram á tónleikum. Olli þetta smá töf á næstu breiðskífu en hún kom út árið 2008 og var samnefnd söngvaranum. En sú plata fór hæst í 7. sæti á bandaríska vinsældarlistanum. Síðan þá hafa komið út fjórar breiðskífur frá DeGraw og sú nýjasta kom út árið 2016. 

Þrátt fyrir að hafa slegið í gegn í tónlistinni hefur DeGraw ekki alltaf verið jafn heppinn í einkalífinu. Árið 2011 varð DeGraw fyrir alvarlegri líkamsárás þegar að hann yfirgaf bar sem hann rekur í New York. Hlaut hann mikla áverka í árásinni en aðeins örfáum mínútum eftir árásina keyrði leigubíll á hann. Þurfti hann að fresta nokkrum tónleikum í kjölfarið en náði sér að fullu nokkrum mánuðum síðar. 

Miðasala á tónleika Gavin DeGraw hefst 26. mars.