Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gaukur á stöng kominn í skjól

04.08.2013 - 20:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Byggt verður nýtt skýli yfir tóftir sögualdarbæjarins á Stöng í Þjórsárdal en þessar merku fornminjar liggja undir skemmdum. Meðal annars vegna ágangs hestamanna.

Frekar lítið er vitað um Gauk heitinn Trandilsson, bónda á Stöng í Þjórsárdal, enda handritið að sögu hans glatað fyrir mörgum öldum síðan. Engu að síður koma hingað þúsundir manna á hverju ári til að skoða þessar merku fornleifar.

Stangarbærinn var grafinn upp árið 1939 og síðan byggð skemma yfir tóftirnar. Nú stendur til að rífa það hús og byggja ný mannvirki bæði til að bæta aðgengi fyrir alla að staðnum og einnig til að verja fornminjarnar betur, en það er talið nauðsynlegt.
Að sögn Kristínar Huld Sigurðardóttur forstöðumanns Minjastofnunar Íslands kennir ýmissa grasa á svæðinu. „Bæði rennur inn vikur af svæðinu, inn í rústirnar, sandur og fleira. Svo höfum við orðið vör við að hestamenn hafi farið með hesta inn í rústirnar, við sjáum hófaför eftir þá. Það er hestarétt þarna rétt fyrir neðan og þeir virðast taka þá inn sem er ekki gott mál. Þannig að minjarnar eru að skemmast,“ segir hún.

Kristín kveðst vonast til að ný yfirbygging yfir stangarbæinn verði tilbúin árið 2015 eða 2016. Nýja yfirbyggingin verður töluvert frábrugðin núverandi skála. „Þettta er ekki nýr skáli. Þetta er meira skýli yfir rústirnar, í raun og veru bara tréskýli,“ segir hún. 
Og minjar sem eru utan skálans verða tengdar við nýja skýlið. „Við ætlum að láta bara stíga eiginlega liggja að, bæði smiðju og fjósi og hlöðu sem eru þarna og við ætlum reyndar að breyta aðgenginu að minjunum þannig að það verið fyrst komið að útihúsunum og síðan verður fólk leitt inn í skálann,“ segir Kristín.