„Gátu þau ekki allavega farið niður í helming“

03.06.2019 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Draga á úr krónu á móti krónu skerðingu í 65 aura á móti krónu. Félagsmálaráðherra á að mæla fyrir frumvarpi þess efnis í dag. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins segir þetta ekki nóg.

„Þetta eru sár vonbrigði að það skuli ekki verið meira gert fyrir þennan hóp. Þetta fólk sem er búið að bíða síðan í hruni eftir að fá einhverja leiðréttingu. Menn eru að byrja núna en þeir hefðu mátt gera betur miðað við það sem undan er gengið,“ segir Þuríður Harpa.

Í frumvarpinu segir að króna á móti krónu skerðing framfærsluuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sé afnumin. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að í stað þess að miða útreikning við allar tekjur lífeyrisþega verði miðað við 65% af tekjum lífeyrisþega.

„Gátu þau ekki allavega farið niður í helming, þar sem það var búið að lofa manni að krónu á móti krónu skerðingin yrði tekin út þegar yrði farið í breytingar á almenna tryggingakerfinu,“ segir Þuríður Harpa jafnframt.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu í morgun að með frumvarpinu væri verið að stíga fyrstu skrefin og því hljóti menn að fagna. „Við höfum til ráðstöfunar á þessu ári 2,9 milljarða til handa til að bæta kjör örorkulífeyrisþega hugsunin á bak við þetta frumvarp er að stíga fyrstu skrefin til afnáms skerðinga og það er svo sannarlega gert,“ segir Ásmundur Einar, sem á að mæla fyrir frumvarpinu í dag en á undan því eru fimmtán mál og óvíst hvort það kemst að.

Þuríður Harpa segir að ýmislegt gott sé í frumvarpinu, til að mynda á að taka upp samtímakeyrslur á örorkulífeyri. Sem þýðir að bakreikningar verða að mánaðarlegum greiðslum en ná ekki yfir heilt ár.

„Það er algjörlega óáættanlegt eins og þetta hefur verið. Allavega að fólk sé ekki að fá gríðarlega bakreikninga ári seinna, sem hefur allt framhald hjá þeim. Í heild erum við ánægð að það sé verið að fara að vinna í þessu. En við erum fyrir vonbrigðum að það sé ekki meira lagt í þetta.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi