Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gasmengun fylgir litlu hlaupi í Múlakvísl

01.10.2019 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður K. Þórisson - RÚV
Veðurstofan og Almannavarnir vara við gasmengun við Múlakvísl. Síðustu tvo daga hefur rafleiðni aukist jafnt og þétt í ánni og lítið hlaup er hafið. Um þessar mundir er meira vatn í ánni en vanalega, miðað við árstíma, en þó ekki jafnmikið og þegar það nær hápunkti á sumrin. Þónokkur gasmengun fylgir hlaupinu en fyrr í dag varaði Veðurstofan við gasmengun við Láguhvola, þar sem hún mældist yfir heilsuverndarmörkum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að hlaup af þessari stærðargráðu séu vel þekkt í Múlakvísl en í þetta sinn fylgi hlaupinu mikil gasmengun sem er það sem viðbragðshópar hafa mestar áhyggjur af að svo stöddu.

Í gærkvöldi og nótt mældist talsvert af gasi og magnið er yfir heilsuverndarmörkum. Kristín Elísa segir líklegt að gas mælist fram undir hádegi á morgun en þá hvessir, gasið dreifist meira og minni líkur á að fólk verði fyrir áhrifum. „Það hefur fundist brennisteinslykt við brúna við þjóðveginn og það er mikilvægt að fólk sé ekki að staldra við ána,“ segir Kristín Elísa. Þá sé mikilvægt að þeir sem finna fyrir einkennum vegna gasmengunarinnar, sviða í augum og nefi, komi sér af svæðinu.

Líklegt er talið að hlaupið standi í einhverja daga í viðbót en það er að öllum líkindum ekki búið að ná hámarki. „Það gæti vaxið, það er ekki búið að ná hámarki,“ segir Kristín Elísa. Hún segir viðbúið miðað við fyrri hlaup að það standi í einhverja daga í viðbót. „Veðurstofan er á sólarhringsvakt að fylgjast með, ásamt Almannavörnum og öðrum viðbragðsaðilum, þannig að ef eitthvað breytist þá erum við fljót að bregðast við.“