Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gangurinn nálægt sporði Dyngjujökuls

23.08.2014 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Kvikuinnskotið undir Dyngjujökli hefur lengst um fimm kílómetra undanfarna klukkutíma og færst til norðurs. Endi gangsins er nú 3 - 4 km. frá sporði Dyngjujökuls segir Kristín Jónsdóttir hjá Veðurstofu Íslands. Mikil skjálftavirkni er nú nálægt Bárðarbungu og órói hefur aukist á þessu svæði.

Kristín sagði í hádegisfréttum að síðustu klukkutímana hefði skjálftavirkni verið svo mikil að ómögulegt hefði verið að greina einstaka skjálfta. Hún vildi ekki svara því hvort auknar líkur væru á gosi, en sagði að allir væru að búa sig undir að það gæti gerst. Atburðarásin gæti verið mjög hröð. Samtúlkun GPS mælinga og skjálftamælinga bendi til þess að enn streymi kvika inn í bergganginn. Erfitt sé hins vegar að segja hvort kvikan sé á leið nær yfirborðinu. 

Norðurendi berggangsins er nú um 3 - 4 kílómetra frá sporði Dyngjujökuls, á svæði þar sem jökullinn er 2 - 400 metra þykkur. Ef gos kemur upp þar, gæti það tekið frá hálftíma til nokkra klukkutíma að bræða sig í gegnum jökulísinn. Gera má ráð fyrir að flóð kæmi undan jökulsporðinum fljótt eftir að eldsumbrot hefjast. Stærð þess fer þó alfarið eftir stærð gossins. 

Veðurstofan skoðar nú hvort hækka eigi viðvörunarstig vegna flugs í rautt, en það hefur verið appelsínugult. Verði sú ákvörðun tekin þýðir það að allt flug verður bannað á stóru svæði í kringum Bárðarbungu. 

TF SIF, vél Landhelgisgæslunnar flýgur yfir gosstöðvarnar í dag til að fylgjast með breytingum á yfirborði jökulsins.