Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ganga gegn streitu á Akureyri

30.09.2019 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hópur kvenna á Akureyri fer vikulega saman í göngu og nýtir þannig útiveru og hreyfingu gegn neikvæðum áhrifum streitu. Umsjónarkonur hópsins segja mikilvægt fólk læri að tækla streitu á heilbrigðan hátt.

Ekki bara hreyfing

Í hópnum er lögð áhersla á útiveru og hreyfingu - en einnig núvitundaræfingar. Þær Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur og Guðrún Arngrímsdóttir heilsuþjálfari eru umsjónarmenn hópsins.

„Okkur datt í hug að sameina streituvarnir, útiveru, samveru og slökun þannig að þá urðu til gönguhóparnir sem heita gengið gegn streitu, því það er það sem við erum að gera,“ segir Inga. 

„Þetta er hugrækt, fyrst og fremst en ekki líkamsrækt, þannig að ég, gamla gigtargeitn, fer mér rólega og svo erum við með líkamsræktarkonuna og við bara mætum, sem flestum.“

„Get alveg mælt með þessu“

Þær Elín Lýðsdóttir og Kristín Ólafsdóttir mæta í hverri viku og ganga með hópnum. Þær eru sannfærðar um að gangan hafi góð áhrif á líf þeirra. 

„Þetta minnir svolítið á það þegar maður fer með börnunum sínum út að ganga. Í staðin fyrir að vera alltaf að spana að þá er maður að velta fyrir sér hlutunum og gefur sér tíma til að hugsa og svona. Ég get alveg mælt með þessu fyrir fólk sem er í mikilli streitu, sem flestir eru í dag,“ segir Elín.