Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gamlársveðrið gott fyrir lungun en verra fyrir flugelda

31.12.2019 - 06:38
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Veðurspá dagsins lofar ekki góðu fyrir sprengiglaða Íslendinga, en fólk með viðkvæm öndunarfæri getur andað léttar. Stífar en mildar sunnanáttir verða ráðandi fram eftir degi og jafnvel fram á kvöld, og þessu fylgir rigning víða um land, en þurrviðri verður á Norðausturlandi.

Þetta kemur fram í veðurpistli frá Veðurstofu Íslands. Þar er stóru spurningum dagsins velt upp: Verður mögulegt að kveikja í áramótabrennum og skjóta upp flugeldum í kvöld? Og hvernig verða loftgæðin ef og þegar flugeldunum verður dúndrað upp, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu?

Stutta svarið er að útlitið er óvíða gott fyrir brennur og bombur, en að sama skapi lítil hætta á viðvarandi loftmengun.

Víða rok og rigning fram á kvöld, sums staðar með hléum

Nokkuð vindasamt verður fram eftir morgni en upp úr hádegi tekur vindur að ganga niður norðan- og vestantil á landinu. Þar hvessir þó talsvert aftur er líður á kvöldið og á suðaustanverðu landinu verður bálhvasst og nokkuð blautt fram undir miðnætti, en fer þá loks að lægja þar. Er því tvísýnt með áramótabrennurnar á Norðvestur- og Suðausturlandi.

Gott lungnaveður

Fátt mun þó hindra skotglaða flugeldaáhugamenn, segir í pistli veðurfræðings, þó að hann rigni, gangi á með skúrum eða slydduéljum. Og til allrar hamingju blæs líklega nægur vindur alstaðar til þess að dreifa vel menguninni sem fylgir flugeldaákafanum og þjóðin öll getur því varpað öndinni léttar þegar nýja árið gengur í garð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV