Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gallup: Meirihlutinn í borginni fallinn

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups. Flokkurinn mælist með 28,3 prósenta fylgi. Samfylkingin er næst stærst með 26 prósent, svo koma Píratar með 11 prósent, Viðreisn 8,7 prósent, Vinstri græn 6,2 prósent, Miðflokkurinn 5,8 prósent og Flokkur fólksins 3,8 prósent. Samkvæmt þessari könnun verða því sjö flokkar með fulltrúa í borgarstjórn.

Sósíalistaflokkurinn er næstur með mann inn, flokkurinn mælist með 3,4 prósenta fylgi en 2,9 prósent sögðust ætla að kjósa Framsóknarflokkinn.

Aðrir flokkar mælast með 3,8 prósenta fylgi samanlagt. Af þeim sem tóku þátt sagðist enginn ætla að kjósa Frelsisflokkinn og einn Íslensku þjóðfylkinguna. Þrír nefndu Höfuðborgarlistann, fjórir ætluðu að greiða Borginni okkar Reykjavík atkvæði sitt, sex Karlalistanum, ellefu Alþýðufylkingunni og sautján Kvennahreyfingunni.

Tveggja flokka meirihluti eða fjögurra flokka

Gangi könnun Gallups eftir á morgun er meirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata fallinn. Björt framtíð býður ekki fram en  hinir flokkarnir þrír myndu ekki ná þeim tólf borgarfulltrúum sem þarf til að mynda meirihluta. Samfylkingin fengi sjö borgarfulltrúa, Píratar þrjá og Vinstri grænir einn. Sjálfstæðisflokkurinn fengi átta borgarfulltrúa, Viðreisn tvo og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins einn.

Þetta myndi jafnframt þýða að aðeins Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað tveggja flokka meirihluta. 

Ólíkir stuðningshópar stóru flokkanna tveggja

Þegar fylgi flokkanna er skoðað eftir aldri sést að fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest meðal þeirra sem eru 60 ára og eldri en 38 prósent þeirra sögðust ætla að styðja flokkinn. Stuðningur við flokkinn er minnstur meðal kjósenda sem eru 30 ára og yngri eða 15 prósent. Dæmið snýst við hjá Samfylkingunni því 23 prósent 60 ára og eldri sögðust ætla að greiða flokknum atkvæði sitt á morgun en 33 prósent 30 ára og yngri.  Stuðningur við Samfylkinguna er mestur meðal þeirra borgarbúa sem búa í mið- og vesturbæ Reykjavíkur en í Grafarvogi hjá Sjálfstæðisflokknum. 

Þá vekur athygli að aðeins 33 prósent þeirra sem sögðust hafa kosið VG í síðustu sveitastjórnarkosningum ætluðu að kjósa flokkinn aftur. 57 prósent þeirra sem sögðust hafa kosið Samfylkinguna ætluðu að greiða honum atkvæði sitt á morgun og 74 prósent þeirra sem sögðust hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn ætluðu að gera það aftur.  Aðeins sex prósent þeirra sem sögðust hafa kosið Framsókn og flugvallarvini sögðust ætla að kjósa Framsókn á morgun. 

Könnunin var gerð dagana 22. til 25. maí. Heildarúrtaksstærð var 2.215 og var þátttökuhlutfall 57,7 prósent eða 1.104. Af þeim sögðust 6,6 prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu og 7 prósent tóku ekki afstöðu.

Spurt var: „Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“

Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“

Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV