Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gagnrýnir skýrslu um hatursorðræðu

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, telur að draga megi í efa niðurstöðu nýlegrar skýrslu um hatursorðræðu í ummælakerfum íslenskra fjölmiðla. Fulltrúar annarra flokka fagna skýrslunni sem mikilvægu framlagi til greiningar hatursorðræðu.

Sveinbjörg Birna gagnrýnir rannsóknina þar sem hún átti að taka til orðræðunnar í eitt ár til 1. mars síðastliðinn en einnig var fjallað um umræðu um byggingu mosku í tengslum við borgarstjórnarkosningar í vor. Fjallað var um rannsóknina á fundi borgarráðs í dag og þar bókaði Sveinbjörg að hún teldi vinnubrögðin „ómarktæk og gera annars góða vinnu afar haldlitla við greiningu verkefnisins". Hún fagnaði umræðu um hatursorðræðu í ummælakerfum en taldi að þar sem 40 prósent ummæla féllu utan þess tímabils sem hefði átt að rannsaka mætti draga niðurstöðurnar í efa. Það væri vegna þess að einn hluti umræðunnar hefði verið skoðaður lengur en hinir.

Fulltrúar annarra flokka í borgarráði létu einnig bóka viðbrögð sín við rannsókninni og þökkuðu fyrir mikilvægt framlag til greiningar á hatursorðræðu í samfélaginu. Þeir sögðu brýnt að nota niðurstöðurnar til frekari vinnu við að uppræta fordóma og hatursorðræðu.

Í inngangi skýrslunnar segir að markmið greiningarinnar hafi verið að skoða helstu einkenni umræðunnar í ummælakerfum og hvort hún einkenndist af hatursorðræðu. Ákveðið hafi verið að kanna einnig þá umræðu sem skapaðist um byggingu mosku í tengslum við borgarstjórnarkosningar í vor.

Bjarney Friðriksdóttir rannsakaði hatursorðræðu í ummálakerfum og kynnti niðurstöðurnar fyrr í þessum mánuði. Þar kemur fram að algengast sé að fordómafull ummæli séu sett fram í garð múslima. Að auki séu ummæli sem einkennist af þjóðernishyggju og nýrasisma algeng. Efnisflokkar sem skoðaðir voru eru; hælisleitendur/ flóttafólk, fólk af erlendum uppruna / innflytjendur, bygging mosku í Reykjavík, jafnrétti kynjanna, feminismi, kynferðislegt ofbeldi og hinsegin fólk.

Bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Um leið og við fögnum umræðu um hatursorðræðu í ummælakerfum íslenskra netfréttamiðla, þá teljum við að niðurstöðu skýrslunnar (bls. 24-25) megi draga verulega í efa, þar sem tæp 40% þeirra ummæla sem skoðuð voru féllu fyrir utan það tímabil (1. mars 2013-1. mars 2014) sem skýrsluhöfundi var falið að skoða. Alls voru skoðuð 14.815 ummæli og af þeim voru 5.725 tengd umræðu um byggingu mosku í Reykjavík í tengslum við sveitarstjórnarkosningar 2014 og er það 40% af rannsóknarandlaginu. Við skýrslugerðina var fylgst með umræðu um byggingu mosku fram í júlí 2014 en önnur rannsóknarandlög ekki skoðuð á framlengdu tímabili. Eru slík vinnubrögð ómarktæk og gera annars góða vinnu afar haldlita við greiningu verkefnisins.

Bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Borgarráðsfulltrúarnir þakka fyrir mikilvægt framlag til greiningar á hatursorðræðu í samfélaginu. Brýnt er að niðurstöðurnar verði nýttar í frekari vinnu til upprætingar fordóma og hatursorðræðu og að Reykjavíkurborg láti ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

[email protected]