Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Gagnrýnir menntun einkaþjálfara

15.04.2012 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Prófessor við íþróttafræðasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni gagnrýnir að fólk með litla sem enga menntun sé ráðið sem einkaþjálfarar á líkamsræktarstöðvum á meðan íþróttafræðingar með háskólamenntun fá helst ekki vinnu á stöðvunum.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor á Laugarvatni vakti athygli á málinu við Katrinu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra sem var á ferð á Laugarvatni í vikunni.

Ráðherrann spurði mikið út í menntun einkaþjálfara og vildi vita hvort þeir hefðu farið í gegnum skólann á Laugarvatni. Sigurbjörn sagði að svo væri ekki.

„Það sem mér þykir verst er þegar þessar stöðvar vilja til dæmis eingöngu ráða fólk sem hefur lokið einhverju námskeiði í einkaþjálfun, sem er ágætis menntun og allt það, en það er voða skrítið að vilja ekki ráða fólk með meiri og betri menntun. En það er kannski hægt að borga þeim minna kaup.“

Sigurbjörn segist ekki skilja þær líkamsræktarstöðvar sem keyra eingöngu á einkaþjálfurum með litla menntun.

„Það er eins og að ætla að setja upp læknamiðstöð og ætla bara að ráða hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en ekki hafa neinn lækni á staðnum. Mér er til dæmis minnisstætt dæmi sem gerðist í Boot Camp fyrir nokkru, þegar stelpa fékk svokallað rhabdomyolysis - sem lýsir sér í því að prótín fer út í þvagið og svo framvegis, þetta getur valdið alvarlegum nýrnaskaða - þetta er mjög klassískt dæmi um þjálfara sem veit ekki hvað hann er að gera, fær til sín mjög viljugan einstakling og þetta endar svona.“