Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gagnrýndu orðræðu um mótmæli hælisleitenda

20.03.2019 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn úr þremur flokkum gagnrýndu orðræðuna um mótmæli hælisleitenda á Austurvelli undanfarna daga og sögðu dapurlegt að hún skyldi hafa ratað inn í þingsal. „Í stað þess að þingmenn ræddu kröfugerðina sjálfa á efnislegum nótum var varpað fram undarlegum spurningum um hvort mótmælendur mættu nota kirkjuklósett eða ekki,“ sagði Sigríður María Egilsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Nokkrir þingmenn fussuðu og sveiuðu undir ræðu Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins, á Alþingi í gær.  Þar gagnrýndi hann Reykjavíkurborg fyrir að hafa leyft mótmælendum að reisa tjaldbúðir á Austurvelli og að æðstu menn kirkjunnar skyldu hafa staðið fyrir því að breyta dómkirkju landsins í almennings-náðhús.  

Sigríður María Egilsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði Alþingismenn eiga að vita betur en að gera upp á milli stjórnarskrárvarins réttar fólks eftir því hvort þeir hefðu samúð með málstaðnum eða ekki. „Rétturinn til að mótmæla stendur ekki og fellur með því hvort okkur líkar málstaðurinn. Rétturinn til að mótmæla stendur og fellur með lýðræðinu sjálfu.“  Ekki ætti að stilla ólíkum hópi fólks upp á móti hvert öðru. Í því hugafari fælist sundrungin. „Ef sagan kennir okkur eitthvað er það að á henni græðir enginn.“

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, tók í sama streng og sagðist halda að þingmenn ættu að vera betur að sér í lýðræðisfyrirkomulaginu en að gefa það frá sér að það væri á einhvern hátt ekki í lagi að nýta sér lýðræðislegan rétt til að mótmæla. Mest hefði verið rætt um mótmælin sjálf og hvernig þau hefðu farið fram en minnst um það hvað mótmælendurnir vildu. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði ansi marga hafa skammast yfir meintum sóðaskap og það hefði meira að segja heyrst í þingsal. Viðkomandi ættu að líta í eigin barm og spyrja hvað þeir væru í raun og veru að meina. Væru þeir að agnúast út í gangstéttarhreinsun og meðferð grasflata eða fyndist þeim að hælisleitendur ættu að steinþegja og bíða eftir að vera vísað úr landi.

Rétturinn til að mótmæla og krefjast betra lífs ætti að vera þingmönnum heilagri en flest annað. Undir lok ræðu sinnar spurði Kolbein svo hvort það gæti verið að í þeim hópi sem hæst hefði haft um meintan sóðaskap og virðingu væri fólk sem væri meira annt um virðingu „líflausra styttu en lifandi fólks?“

Þrír mótmælendur voru handteknir í gær fyrir að hindra för þingmanna en þeim var sleppt að loknum skýrslutökum. Á morgun verður síðan fundur í allsherjar-og menntamálanefnd þar sem fjallað verður um aðgerðir lögreglu vegna mótmæla og réttinda útlendinga. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV