Gagnrýndi skattaskjól - nýtti þau sjálf

Mynd: Kastljós / Rúv
Oddviti Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn Reykjavíkur segir af það hafi ef til vill verið vanhugsað af sér að skrá ekki fyrirtæki sem hún tengist í hagsmunaskrá borgarfulltrúa. Hún tengist tveimur aflandsfélögum, á Tortóla og í Panama, en hefur gagnrýnt notkun aflandssvæða í borgarstjórn. Hún segir að félögin hafi verið stofnuð um fjárfestingar í fasteignaframkvæmdum í Panama en hrunið hafi gert út um þær. Þá viðurkennir hún að skattalegt hagræði hafi verið af slíku fyrirkomulagi.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í þættinum var fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Þátturinn var unninn í samstarfi við Reykjavík Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung.

Umfjöllunin byggði á svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustu fyrirtækis á Panama.

Starfaði í Lúxemborg

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir var kjörin í borgarstjórn  fyrir Framsókn og flugvallarvini í kosningunum 2014. Áður hafði hún starfað við lögmennsku og fyrir fjárfestingabankann Askar Capital og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte í Lúxemborg. Sveinbjörg er skráð fyrir tveimur félögum í umsjá Mossack Fonseca - 7Callinvest skráð á Tortóla  og Ice 1 Corp sem skráð var í Panama.

Tortóla

Félagið 7Callinvest inc. var skráð á Tortóla í lok nóvember 2007. Sveinbjörg Birna var skráð eini eigandi alls hlutafjár í félaginu og jafnframt veitt prókúra fyrir það. Í stjórn sátu þó starfsmenn Mossack Fonseca, eins og jafnan í félögum sem þessum. Eftir því sem næst verður komist var félagið afskráð í árslok 2009.

Panama

Panamíska félagið sem Sveinbjörg tengist jafnframt ber nafnið Ice 1 Corp og er stofnað á Panama nokkrum dögum síðar, í desember 2007. Litlar upplýsingar eru um félagið sem er sagt í eigu íslensks hlutafélags, P10 ehf. P10 ehf. var stofnað í Reykjavík af Sveinbjörgu og nokkrum viðskiptafélögum hennar. Sveinbjörg var og er enn skráður stjórnarformaður P10 ehf. sem enn er starfandi. Samkvæmt nýjasta ársreikningi P10 var félagið stofnað vegna fasteignaviðskipta í Panama. Þar er færð inn á annað hundrað milljóna króna eign vegna fasteignaverkefnis í byggingu í Panama.

Urðu hruninu að bráð

Sveinbjörg Birna segir að bæði aflandsfélögin hafi tengst fasteignaviðskiptum sem hún og félagið P-10 hafi staðið fyrir á Panama. Af þeim hafi þó ekkert orðið, vegna hrunsins og því hafi hún talið að búið væri að slíta öllum félögunum. Í gögnum Mossack Fonseca er ekki að finna upplýsingar um að félögunum hafi verið slitið. Eignarhlutur Sveinbjargar í íslenska fyrirtækinu P-10 sé þó, að sögn hennar, enn skráður á hennar nafn í skattskýrslu hennar. 

Ekki á skrá

Í skráningu Sveinbjargar á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa á vef borgarinnar er ekkert minnst á aflandsfélögin tvö eða íslenska félagið P-10. Aðspurð hvers vegna hún hefði ekki skráð félögin í samræmi við reglur borgarinnar, sagði Sveinbjörg að hún hefði bara haldið að fyrirtækjunum hefði verið slitið. Hún hefði líklegast átt að skrá félagið P-10 ehf.

Hefur mótmælt skattaskjólum

Sveinbjörg hefur í störfum sínum í borgarstjórn ítrekað lýst sig andvíga því að Reykjavíkurborg eða fyrirtæki á hennar vegum eigi aðild að fyrirtækjum á aflandseyjum. 

Í viðtali við Kastljós fyrir ári sagði hún:

„Alveg eins og mér finnst ekki koma til greina að Orkuveitan eða félög á vegum Reykjavíkurborgar stofni félög í skattaparadísum að þá finnst mér ekki koma til greina að lífsskoðunar-, trúfélög og stjórnmálaflokkar taki við fjármunum frá löndum sem virða ekki lýðræði og mannréttindi og kvenfrelsi.“

Spurð hvort ekki hefði verið eðlilegra að hún gerði sjálf grein fyrir tengslum sínum við eigin aflandsfélög í skattaskjólum í þeirri umræðu sagði hún mikinn mun á því að opinber fyrirtæki stundir viðskipti á aflandssvæðum, eða einstaklingar. Þáttaka hennar í viðskiptum á aflandssvæðum hefði aldrei verið leyndarmál. Hún hefði meðal annars rætt opinskátt um þau mál í viðtali í DV stuttu eftir borgarstjórnarkosningar. 

Í viðtalinu minntist hún hins vegar ekki á félag sitt á Tortóla eða félagið í Panama, í tengslum við viðskipti sín.

Skattahagræði

Spurð um tilgang þess að stofna félögin á aflandssvæðum sagið hún ástæðuna hafi verið þá að þægilegt hefði verið að stofna félög á Bresku Jómfrúaeyjum um fjárfestingarnar á Panama. Í störfum sínum fyrir Deloitte i Lúxemborg, hafi hún staðið að slíku fyrir viðskiptavini Deloitte.
 
- Er þá skattahagræði fólgið í því að gera þetta svona, ef það hefðu komið peningar út úr þessu? 

„Já það hefði verið það,“ sagði Sveinbjörg Birna.

 

 

 

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi