Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gagnrýna tillögur landbúnaðarráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi kalla aðgerðir stjórnvalda til lausnar á vanda sauðfjárbænda ýmist plástur á sár eða biðleik sem muni stækka kjötfjallið en ekki minnka það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir hve seint fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda eru kynntar og segir að ekki sé tekið á hinum raunverulega vanda, sem sé birgðasöfnun: „Þessar aðgerðir eru jákvæðar að því leyti að þær munu hjálpa en við þurfum svör við því hvort ráðuneytið hafi greint þennan vanda niður á ákveðna hópa og ákveðna landshluta. Við munum ekki sætta okkur við það, ekki Framsóknarmenn, þingið eða þjóðin að það verði hér byggðaröskun og ungt fólk missi jarðir sínar í stórum stíl. Við munum ekki sætta okkur við það. Það gæti þurft að taka á vandanum með kröftugri hætti en að plástra eins og mér finnst ríkisstjórnin vera að gera.“

Sigurður Ingi bætir við að verði þessi leið farin gæti sama staða komið upp að ári.

Biðleikur sem stækkar kjötfjallið

Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, undrast hve óljósar tillögurnar eru miðað við að málið hafi verið á borði ráðherra síðan í lok mars: „Auðvitað er ég hissa á því að sjá að það liggur ekki fyrir ennþá greining á birgðastöðu sem hefur verið kallað eftir. Þessu fylgir heldur ekki greining á áhrifum þeirra á byggðir landsins. Tillögurnar gera ráð fyrir fjármunum sem renni til fækkunar bænda. Þær gera ekki ráð fyrir eða það eru ekki eyrnamerktir fjármunir í raunverulegar breytingar eða framtíðarsýn fyrir íslenskan sauðfjárbúskap. Það er talað um að það sé stefnt að kolefnishlutleysi, sem er mjög mikilvægt fyrir íslenskan sauðfjárbúskap en það er ekki króna merkt í það og ekki króna merkt í nýsköpun.“ Hún segir þessar aðgerðir ekki munu draga úr birgðasöfnun heldur þvert á móti: „Fjármunirnir sem um er að ræða, þeim á að verja til að fækka bændum en í raun koma þeir of seint því þessi biðleikur ráðherrans mun stækka kjötfjallið því við erum komin á þann stað í árinu að þetta mun auka framleiðsluna til að byrja með án þess að framtíðarsýn liggi fyrir.“