Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gagnrýna ferlið við ráðningu bæjarstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Minnihluti bæjarstjórnar á Seyðisfirði gagnrýnir hvernig staðið var að ráðningu bæjarstjóra og telur margt í því ferli verulega ábótavant. Leitað verður álits Samgöngu- og sveitarstjórarráðuneytisins á vinnubrögðum meirihlutans við ráðninguna.

Starf bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar var auglýst laust til umsóknar 14. júní. Leitað var til Hagvangs þegar umsóknarfrestur var liðinn til að vinna úr umsóknum. 1. ágúst var síðan tilkynnt að Aðalheiður Borgþórsdóttir hefði verið ráðin í starf bæjarstjóra.

Ekkert samráð haft þegar starfið var auglýst

Í tilkynningu frá minnihluta bæjarstjórnar er ferlið við ráðningu bæjarstjórans gagnrýnt harðlega. Ekkert hafi verið fjallað um auglýsingu um starf bæjarstjóra í bæjarstjórn eða bæjarráði. Þar með hafi minnihlutinn ekkert getað komið að gerð auglýsingar um starfið sem auglýst sé vegum bæjarins. Minnihlutanum hafi verið boðið að taka þátt í viðtölum við þá umsækjendur sem Hagvangur og meirihluti Seyðisfjarðarlistans töldu hæfasta. Að því ferli loknu hafi verið boðaður aukafundur í bæjarstjórn.

Hafi skort gögn til að geta tekið upplýsta ákvörðun

„Minnihlutinn telur að fundarboðun hafi verið verulega ábótavant sem og fundurinn þar sem ýmis nauðsynleg gögn bárust ekki bæjarfulltrúum fyrir fundinn, varðandi mat á hæfni umsækjenda, og því ómögulegt fyrir flesta viðstadda að taka vel upplýsta ákvörðun varðandi málið. Sér í lagi þá fulltrúa sem ekki sátu allt ráðningarferlið,“ segir orðrétt í yfirlýsingu minnihlutans. „Þessi gögn eru m.a. skýrsla og/eða greinagerð um hæfni umsækjenda, fundargerðir og minnispunktar frá ráðgjafa Hagvangs frá viðtölum, punktar eða greinagerð varðandi samtöl  við meðmælendur, sem og niðurstöður persónuleikaprófa sem umsækjendur tóku.“ 

Vildu fresta fundi til að geta aflað gagna

Þá hafi fulltrúi Framsóknar og frjálslyndra í bæjarstjórn borið upp dagskrártillögu í upphafi fundar þess efnis að umræddum dagskrárlið fundarins yrði frestað þangað til að fullnægjandi gögn bærust. Meirihlutinn hafi fellt þá tillögu. 

Umsækjendur hafi ekki fengið sanngjarna málsmeðferð

„Það er því niðurstaða minnihlutans að ekki sé sýnt umsækjendur hafi fengið sanngjarna málsmeðferð í ferlinu. Auk heldur hafi upplýsingum sem kjörnir fulltrúar eiga rétt á, og kaupstaðurinn lætur vinna og greiðir fyrir, ekki legið fyrir fundinum. Þau gögn hafi verið nauðsynleg til að taka vel upplýsta ákvörðun. Meirihlutinn hafi með framgöngu sinni á fundinum komið í veg fyrir að gögnin lægju fyrir við afgreiðslu málsins.

Ætla að leita álits ráðuneytisins sveitarstjórnarmála 

Minnihluti bæjarstjórnar mun því leita til Samgöngu- og sveitarstjórarráðuneytisins eftir áliti á málsmeðferð og úrskurði um aðgang að öllum gögnum viðkomandi málinu,“ segir í tilkynningu frá fulltrúum D- og B-lista í minnihluta bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV