Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gáfu BUGL bíl

24.05.2019 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: Lionsklúbburinn Fjörgyn
Lionsklúbburinn Fjörgyn afhenti í gær barna og unglingageðdeild Landspítalans nýjan bíl af gerðinni Dacia Duster í stað Renault Traffic bifreiðar sem klúbburinn gaf geðdeildinni fyrir nokkrum árum.

Fjörgyn hefur undanfarin 12 ár séð um rekstur tveggja bíla fyrir BUGL til að nýta við þjónustu við skjólstæðinga sína. N1 og Sjóvá hafa aðstoðað við rekstur þeirra. Sjóvá leggur til ábyrgðar- og kaskótryggingu og N1 eldsneyti á þá. Samstarfssamningur við Sjóvá og N1 var endurnýjaður 2017 til næstu þriggja ára.

Húsnæði BUGL við Dalbraut var um nokkurt skeið ónothæft vegna myglu og þá var tekin ákvörðun um að flytja þjónustu við skjólstæðinga til þeirra. Endurbætur á húsnæðinu standa nú yfir.

Nýi bíllinn hentar betur til akstur úti á landi þar sem veður og færð eru með misjöfnu móti.

„Þakklæti starfsfólks og vissan um að bílarnir eru nær ómissandi í því góða starfi sem BUGL vinnur er okkur næg umbun og það er alltaf af mikilli gleði sem við leggjum okkur fram í stuðningi við þau,“ segja Lionsmennirnir í Fjörgyn í fréttatilkynningu frá Landspítalanum. Fjörgyn hefur stutt við BUGL með ýmsum hætti í 16 ár. 

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV