Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gaf sér gjöf frá fyrstu ástinni

Mynd: RÚV / RÚV

Gaf sér gjöf frá fyrstu ástinni

19.12.2017 - 10:25

Höfundar

„Þetta var eins og uppgjör eða vörutalning á þessu ári og svo einhvern veginn endaði það í verkunum,“ segir Auður Ómarsdóttir listamaður sem nýlega opnaði sýningu í Gallerí Geysi.

Sýningin ber heitið Hliðstæður og hefur að geyma blöndu teikninga, ljósmynda og málverka. Þetta er níunda einkasýning Auðar.

Verkin eru nýleg og bera skýr höfundareinkenni Auðar, þar sem texti er áberandi. „Þetta er blanda af persónulegum ferðasögum og einhvers konar speglun á samfélagið, umhverfið og upplifunum. Ég skrifa mjög mikið og tek mikið af ljósmyndum líka. Ég fór yfir skissurnar og dagbækurnar og ljósmyndirnar. Þetta verk var eitt það síðasta sem ég gerði en í raun og veru það sem ég var alltaf að gera en átti svo erfitt með útfærsluna. Í gær ákvað ég svo bara að fylgja frumþörfinni og kýla á eina maximalíska, ofhlaðna klippimynd af öllum þessum frummyndum. Þetta fjallar líka um að fylgja, af hverju maður gerir eitthvað svona náttúrulega, af hverju skrifar maður náttúrulega, af hverju tekur maður náttúrulega ljósmynd af einhverju sem er ekkert merkilegt?“

Lítil kveðja frá Leonardo

Eitt verkanna skírskotar til æskuástar Auðar. „Já, þetta gerði ég undir lok ferlis. Mér fannst svolítið fallegt að gefa sjálfri mér gjöf frá fyrstu ástinni minni, Leonardo DiCaprio. Þarna eru líka tengingar við setninguna Grand Opening. Ég er nýbúin að vera í Los Angeles og þar voru svolítið mikið svona skilti á búðum ennþá, „Grand Opening“ og mér fannst það einhvern veginn fallegt þannig að ég samtvinnaði þessu við svona litla kveðju frá Leonardo sem er kvót úr Titanic og eiginhandaráritun. Undir Grand Opening textanum er ljósmynd sem ég tók þegar ég var 15 ára af hendi fyrsta elskhuga míns og svo bara blóm úr IKEA til að kóróna verkið,“ segir Auður.

Sýningin stendur til 31. janúar, í kjallara verslunar Geysis Heima, Skólavörðustíg 12.