Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gætu viljað fá skýrar línur

16.10.2016 - 20:52
Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, telur Pírata vera að taka frumkvæði með stjórnarmyndunarútspili sínu og hugsanlega að þeir vilji þá leiða slíkar viðræður verði af þeim. Hugsanlega vilji Píratar einfaldlega fá skýrar línur í kosningabaráttuna.

„Það er dálítið athyglisvert að þetta yrðu þá fimm flokkar og eins og skoðanakannanir standa þá þarf ekki alla þessa flokka til að mynda meirihlutastjórn. Reyndin hefur verið sú að því fleiri flokkar mynda stjórn því ótryggara verður samstarfið. Þannig að það er líka dálítið athyglisvert að þeir ætla að binda þá fyrirfram fleiri flokka inn í stjórnina en þeir þurfa á að halda þegar upp er staðið. Það verður erfitt að sparka einhverjum út á lokametrunum ef hann er búinn að gangast inn á það að vera með.“ 

Þrettán dagar eru til kosninga. Guðmundur segir að ákveðin tíðindi yrðu einnig í því ef flokkarnir ákveða að vera ekki með. „Það myndi líka breyta því það myndi opna þetta allt saman meira en annars væri.“ Ef flokkarnir segist tilbúnir að vinna saman eftir kosningar, þá væri búið að mynda stjórnina fyrirfram. 

Samfylking og VG opnari fyrir hugmyndinni en Björt framtíð og Viðreisn

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist reiðubúin að fara með opnum huga inn í tilraun Pírata og sjá hvað setur. Samfylkingin hafi alltaf sagt að hún vilji líta til stjórnarandstöðunnar ef hún komist í færi til ríkisstjórnarmyndunar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að flokkurinn hafi talað fyrir því allt þetta ár að stjórnarandstaðan skoði möguleika á að mynda kosningabandalag. „Þannig að við erum til í slíkt samtal, en ég reikna þá með að þá auðvitað þyrfti það samtal að snúast um þau málefni sem hver og einn setur á oddinn, og við erum bara jákvæð bara jákvæð fyrir því, enda höfum við alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að fólk viti í meira mæli að hverju það gengur í kosningum, um hugsanlegt stjórnarsamstarf eftir kosningar.“

Hinir flokkarnir tveir, sem Píratar hafa boðið til stjórnarmyndunarviðræðna, virðast ekki jafn áhugasamir. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, telur ólíklegt að Viðreisn fari í að mynda kosningabandalag núna, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að flokkurinn hafi ekki myndað sér skoðun á því með hverjum hún vilji vinna eða ekki, að öðru leyti en því að hún útiloki samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra blæs á ásakanir Pírata um að Framsóknarflokkurinn sé spilltur. „Ég auðvitað vísa slíkri umræðu á bug. Aðalatriði er þetta: Nú göngum við til kosninga. Kjósendur í landinu hafa valið. Við setjum fram okkar stefnu, og erum tilbúnir að vinna áfram með öllum þeim sem vilja vinna með okkur að þessum hlutum. Halda áfram að efla hér velsæld á Íslandi, auka kaupmátt, hagvöxt og áframhald. Mér finnst ágætt að það sé kominn skýr valkostur um það hvort menn vilji hverfa aftur til vinstristjórnar síðasta kjörtímabils.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vildi ekki tjá sig um málið í dag.