Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gætu séð heiminum fyrir orku

21.08.2019 - 16:05
Mynd: GE / GE
Hópur vísindamanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að pláss sé fyrir 11 milljónir vindmylla í Evrópu. Útreikningar þeirra sýna að þær gætu framleitt meiri orku en áætlað er að framleidd verði á heimsvísu 2050.

Það er áætlað að í Evrópu í dag séu starfræktar rúmlega 100 þúsund vindmyllur. Til að komast upp í 11 milljónir þyrfti að 100 falda fjöldann. Löndin innan ESB  framleiða nú um þriðjung af allri vindorku í heiminum. Evrópusambandið stefnir að því að reistar verði  að minnsta kosti 100 þúsund vindmyllur fram til ársins 2050.

Vindorka er nú annar stærsti orkugjafinn í Evrópu. Gasið er sá stærsti. Talið er að vindorkan verði komin í fyrsta sætið 2027. Í Evrópu er framleitt af mest af vindorku í Þýskalandi, um 59.000 megavött. Kína framleiðir mest eða yfir 221.000 megavött  eða 221 gígavatt.  Bandaríkin um rúm 96 gígavött. Hlutfall vindorkunnar af heildarnotkun er hæst í Danmörku. Í fyrra nam það 41%. Hægt er að fylgjast með dag frá degi hve mikið er framleitt af vindorku í hverju landi í Evrópu á vef sem fylgist með því. 

Nóg af plássi

Það eru stjarnfræðilegar tölur sem koma fram í rannsókn vísindamanna frá sex löndum þar sem vísindamenn fá Danmörku voru í fararbroddi. Peter Enevoldsen, sem starfar við háskólann í Árósum, segir að takmarkið sé ekki að Evrópa sjái öllum heiminum fyrir orku heldur að varpa ljósi á að í Evrópu sé pláss fyrir mun fleiri vindmyllur. Notuð voru öll aðgengileg gögn um vind og vindaðstæður í Evrópu til að gera sér grein fyrir hvar væri vænlegast að virkja.

Tekið var tillit til reglna sem gilda í hverju landi um uppsetningu vindmylla  t.d. hve þétt þær mega vera. Niðurstaðan er að koma megi fyrir 11 milljónum vindmylla sem gætu framleitt 497 exajoule sem er meira en áætluð heimsframleiðsla verður 2050. Meginniðurstaðan er að Noregur, Rússland og Tyrkland þykja vænleg lönd fyrir vindorku. Þar er vindorkan lítið nýtt en miklir möguleikar og nóg pláss að mati skýursluhöfunda. Og það er verið að tala um vindmyllur sem staðsettar væru á landi en ekki í sjó.

Spegillinn hefur ekki náð að lesa sjálfa skýrsluna en í fréttum er hvergi minnst á Ísland. En þegar litið er á kort úr skýrslunni kemur ekki á óvart að Ísland er rautt eins og Rússland og Noregur þar sem aðstæður fyrir vindorku eru taldar góðar.

Mynd með færslu
Hvar vænlegast er að virkja

Ekki allir sáttir

Það er að sjálfsögðu ekki verið að stefna að því að 11 milljónum vindmylla verði komið upp. 70%  losunar gróðurhúsalofttegunda í Evrópu má rekja til orkuframleiðslunnar. Þess vegna er eðlilegt að litið sé til vindorkunnar. Hins vegar á vindorkan erfitt uppdráttar vegna þess að það eru ekki allir sáttir við að búa í nálægð við vindmyllugarð. Umhverfissamtök víða í Evrópu eru ekki sátt við vindmylluuppbygginguna vegna þess að hún veldur raski á náttúrunni og bæði hljóð- og sjónmengun.

Þrjár og hálf Hallgrímskirkja

Það er  ljóst að aukin áhersla verður lögð á að virkja vindorku í framtíðinni. Vindmyllurnar eru að stækka og þykir mörgum nóg um. GE Renewable Energy, dótturfyrirtæki General Electric, er að reisa stærstu vindmyllu í heimi í sjónum fyrir utan Rotterdam í Hollandi. Hún gengur undir nafninu Haliade X. Verður 260 metrar á hæð eða þrjár og hálf Hallgrímskirkja. Hver spaði er 107 metrar á lengd og spaðahafið 220 metrar. Afl myllunnar verður 12 megavött sem nægir til að sjá um 16 þúsund heimilum fyrir orku.

Danska fyrirtækið Vestas hefur framleitt stærstu mylluna fram að þessu. Framleiðslugeta hennar er 9,5 megavött.