Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gætu reist allt að 80 vindmyllur

28.05.2014 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsvirkjun kannar nú möguleikann á því að reisa allt að 80 vindmyllur í þyrpingu á 34 ferkílómetra svæði á Suðurlandi. Verði verkefnið að veruleika gætu vindmyllurnar framleitt allt að 200 megavött.

Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur ofan við Búrfell í rannsóknarskyni. Markmiðið var að kanna hagkvæmni raforkuvinnslu með þessum hætti. Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að aðstæður til að virkja vindorku virðist vera hagstæðar á svæðinu. Því vill fyrirtækið nú meta möguleikana á að reisa allt að 80 vindmyllur í þyrpingu á 34 ferkílómetrum á milli Búrfells og Sultartanga í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Landið er þjóðlenda. Slíkir virkjunarkostir eru nefndir vindlundir og hefur þessi fengið nafnið Búrfellslundur. Hvert vindmyllumastur yrði 70 til 80 metra hátt og þvermál spaðanna allt að 110 metrar. 

„Við metum sem svo að á þeim hluta svæðisins sem við erum að fara að meta sé hægt að reisa allt að 200 megavött,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar. Hann segir að þess vegna verði farið í mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 megavött. Það komi svo síðar í ljós í hversu stórum áföngum þetta yrði bygtt upp. „Þetta gæti verið byggt upp í nokkrum smærri áföngum.“

Óli Grétar segir að vindmyllur séu dýrari en vatnsafls - og jarðvarmavirkjanir, en þó samkeppnishæfar við smærri virkjanir. Hægt sé að reisa allt að 30 vindmyllur með árs fyrirvara. Verkefnið er háð mati á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun hefur skilað drögum að matsáætlun og eru gefnar um tvær vikur til að koma með skriflegar athugasemdir.