Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gætu lent á lista yfir ósamvinnuþýð ríki

10.10.2019 - 07:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ísland gæti lent á lista yfir ósamvinnuþýð ríki vegna skorts á aðgerðum til að sporna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland hefur ekki uppfyllt kröfur alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tvenn lög voru samþykkt frá Alþingi í gær til að reyna að sporna gegn því að Ísland lendi á listanum.

Frumvörpin sem urðu að lögum í gær snúa annars vegar að skráningu almannaheillasamtaka sem starfa þvert á landamæri. Það er gert vegna hættu á að slík samtök séu misnotuð til að þvætta peninga eða fjármagna hryðjuverk. Mikið lá á að samþykkja það frumvarp. Það var lagt fram á Alþingi á mánudag, mælt fyrir því síðdegis á þriðjudag og samþykkt fyrir kvöldmat í gær. Hvorki gafst tími til að kalla eftir umsögnum eins og venja er né upplýsa þau rúmlega 200 félög sem verða nú að skrá starfsemi sína og skila inn margvíslegum upplýsingum.

Hin lagasetningin veitir stjórnvöldum heimild til að selja eignir sem hafa verið haldlagðar eða kyrrsettar við rannsókn sakamála. Þetta má gera áður en dómur fellur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það frumvarp var lagt fram í síðasta mánuði en ekki rætt fyrr en í fyrradag og samþykkt í gær. Tveir þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýndu hversu hratt málið væri unnið og án þess að aðrir en fulltrúar stjórnvalda gætu tjáð sig um það.

Alþjóðlegi vinnuhópurinn um aðgerðir gegn peningaþvætti, FATF, skilaði skýrslu sinni í fyrra. Orðið var við hluta úrbótatillagnanna með innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti. Annað stóð þó út af. Við eftirfylgni alþjóðlega vinnuhópsins var þrýst á um aðgerðir. Uppfylli íslensk stjórnvöld ekki skilyrðin getur Ísland lent á lista yfir ósamvinnuþýð ríki. Þá geta önnur ríki gert íþyngjandi kröfur til íslenska ríkisins og fjármálafyrirtækja. Það hvort Ísland lendi á listanum eða ekki ræðst upp úr miðjum mánuði.