Gæti stefnt í endalok regnskógarins í Amazon

epa07791661 A general view of a fire in the Amazon of Rondonia, Brazil, 24 August 2019. Brazil began on 24 August to deploy 44 thousand soldiers it has in the vast Amazon region to fight forest fires.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands
Mynd með færslu
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Mynd:
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Eldarnir í regnskógum Amazon í Suður-Ameríku - aðallega Brasilíu - hafa vakið óvenju mikla athygli þó að þar brenni eldar á hverju ári. Eldarnir nú eru meira af mannavöldum en áður og áhyggjur eru af verulegum áhrifum á loftslag ef ekki verður dregið úr eyðingu skógarins.

Ættbálkar í Karitiana í Rondoniu-fylki í Amazonfrumskóginum í Brasilíu syngja þessa dagana gjarnan söng um ástandið. Í textanum segir meðal annars:

Ef þú baðar þig í á langt í burtu,
ef þú baðar þig í á í nágrenninu,
ef þú baðar þig í fossi,
finnst þér þú vera skítugur af menguðu vatni.

Það er ekki til meira af hreinu vatni,
hollum ávöxtum eða góðu kjöti.
Nú er jörðin ekki frjó,
skógarnir eru fallnir og himininn er ekki lengur blár.
Hver er að drepa okkur? Við sjálf.

Þó að þetta sé kannski nokkuð dramatískur texti endurspeglar hann hvernig íbúum regnskóganna líður. Og þar er skógareldum að mestu um að kenna en þeir hafa blossað upp sem aldrei fyrr í sumar.

Lungu alheimsins rangnefni

Það eru norður- og austurhluti skóganna í Brasilíu sem hafa orðið verst úti í eldunum. Fylkin Rondonía, þaðan sem við heyrðum sönginn áðan, og Roraima hafa orðið verst úti - fjöldi elda þar hefur meira en tvöfaldast frá sama tíma í fyrra. Acre og Amazonas hafa einnig misst töluvert af skóglendi í eldunum, og í síðastnefnda héraðinu var lýst yfir neyðarástandi.

En hvers vegna eru þessi skógur svona mikilvægur? Margir hafa talað um skóginn sem lungu jarðar þar sem tuttugu prósent súrefnis sem framleitt er á jörðinni komi úr skóginum. Meira að segja Emmanuel Macron forseti Frakklands tók sér þessi orð í munn þegar hann gagnrýndi aðgerðarleysi brasilískra stjórnvalda þegar kemur að eldunum, eins og komið verður nánar að síðar.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands
Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands. Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands segir að þetta sé misskilningur. „Hann er náttúruleg afskaplega mikilvægur.  Það er talað um að hann sé að framleiða svo mikið súrefni. Og hann framleiðir súrefni, en hann er líka að nýta súrefni. Í stórum dráttum er jafnvægi á framleiðslu súrefnis og neyslu súrefnis. Þær lífverur sem lifa í þessu merkilega vistkerfi anda líka og til öndunar þurfa þær súrefni.  Það er nokkurn veginn jafnvægi, kannski er hægt að telja til einhver örfá prósent nettóaukningu á súrefni frá þessum skógi en í stórum dráttum er jafnvægi þarna á milli.“

Mikilvægi hans er annað og mögulega meira. Í þessum 50 milljón ára skógi sé mikil líffræðileg fjölbreytni. Þarna sé að finna tíundu hverja tegund sem skráð hafi verið. Mennirnir séu mjög háðir þessari fjölbreytni. Þá segir Ingibjörg Svala að mikið kolefni berist út í andrúmsloftið með eyðingu skógarins. „Regnskógurinn skapar sitt eigið loftslag. Ástæðan fyrir því að þetta er regnskógur er að er mjög mikið af vatni í hringrás í skóginum ásamt öllum næringarefnum sem þar eru. Það er hlýtt þar, sem veldur uppgufun á vatni frá plöntum og dýrum. Þegar að þetta heita loft stígur þá kólnar, vatnið þéttist og fellur sem úrkoma. Það er því mikið af vatni í stöðugri hringrás í þessu vistkerfi. Þetta hefur líka víðtæk áhrif á loftslagskerfin fyrir utan skóginn, þetta hefur áhrif á loftslagskerfin þar.“ Áhrifin af eyðingu skógarins verða þau að það dregur úr úrkomu, sem þýðir meiri þurrka og frekari hlýnun.

Talið er að 80% upprunalega Amazonskógarins sé enn til en ágangurinn hefur nær eingöngu átt sér stað síðustu ríflega fimmtíu árin. Þegar herinn var við völd í Brasilíu á árunum 1964-1985 var töluvert af landi tekið eignarnámi, meðal annars til að rýma fyrir hraðbraut í gegnum skóginn, en þó aðallega til að búa til land fyrir búfjárrækt. Á sama tíma voru margir frumbyggjar skógarins hraktir burt sem höfðu nýtt skóginn til framleiðslu á ýmissi nytjavöru, til dæmis gúmmíi.

Frá árinu 2005 hafa stjórnvöld dregið úr þessari eyðingu til að vernda skógana  - en aðeins dregið úr eyðingunni, ekki hætt henni alveg. Og þannig var þróunin þangað til í byrjun þessa árs þegar hún fór í fyrra horf, eins og nánar verður greint frá síðar.

Þurrkar skýra ekki eldana

Skógareldar í Amazon af völdum eldinga eru býsna algengir á þurrkatímanum, sem stendur frá júlí og fram í október. Slíkir eldar liggja lágt því rakinn er það mikill á jörðu og í trjám að eldurinn nær ekki mikilli útbreiðslu.

Þessir eldar byrjuðu hins vegar töluvert fyrir þurrkatímann og hafa í ár náð nýjum hæðum - í orðsins fyllstu merkingu. Yfir 90 þúsund eldar hafa verið skráðir það sem af er ári, en voru tæplega 50 þúsund allt síðasta ár. Eldarnir voru fleiri fyrir 10 árum, en svæðið sem brann var mun minna og þeir voru að mestu raktir til mikilla þurrka á svæðinu, ekki til ágangs mannanna.

Nú segja sérfræðingar að eldarnir séu ekki til komnir vegna þurrka - þeir hafi ekki verið meiri á þessu ári en undanfarin ár. Að auki eru eldarnir mun stærri - svo stórir að mikill reykur hefur sést á gervitunglamyndum, sem gerist almennt ekki. Talið er að ástæðuna fyrir því megi rekja til þess að verið sé að brenna tré sem þegar hafa verið söguð niður og eru því orðin þurr - og þá aðallega til að rýma enn meira til fyrir búfjárrækt.

Til marks um hversu miklir eldarnir voru varð nánast myrkur um hábjartan dag í klukkutíma í Sao Paolo í byrjun mánaðarins þegar vindurinn bar reykinn yfir borgina. Lýsingar íbúa minntu um margt á lýsingu íbúa á Suðurlandi þegar eldgosið í Eyjafjallajökli leiddi af sér slíkt öskufall að nánast almyrkt varð á stóru svæði. Það hafi verið eins og nótt hafi skollið á á einu andartaki. Þá hefur reykurinn einnig borist til nágrannalandanna Bólivíu og Paragvæ.

Í þessu innslagi frá CNN má meðal annars sjá eldana og myrkrið sem skall á Sao Paolo.

Ófrjósamur jarðvegur situr eftir

Ingibjörg Svala bendir á að þessar aðgerðir hafi áhrif á vistkerfi regnskógarins. Og það kerfi er mjög ólíkt því sem við eigum að venjast á norðurslóðum. „Hér á Norðurslóðum er megnið af kolefni vistkerfanna bundið í jarðvegi og það hlutfall eykst þegar norðar dregur. Í regnskógunum er þessu öfugt farið. Þar er kolefni vistkerfisins bundið í gróðrinum og það er sáralítið af kolefni í jarðvegi hlutfallslega – það er auðvitað breytilegt eftir jarðvegsgerðum en í stórum dráttum er þetta þannig. Það má því segja að kolefnishringrásin og efnahringrásin í þessum vistkerfum fari fram í yfirborði jarðvegsins og þar fyrir ofan, öfugt við það sem á sér stað hér á Norðurslóðum. Þannig að þegar skógurinn er ruddur er verið að eyðileggja þetta vistkerfi. Og eftir situr tiltölulega ófrjósamur jarðvegur.“

Þessa þróun ætti að skoða í ljósi þess sem höfðinginn Andenor frá Ródoníu hefur að segja þegar hann lýsir hvernig þessi eyðing á trjám í Amazonfrumskóginum í Brasilíu fer fram. „Fyrst höggva þeir stærstu og verðmætustu trén, síðan brenna þeir viðinn til að búa til beitarhaga. Á einu ári verða aðeins beitarhagar á svæðinu. Þetta fólk hugsar ekki um Brasilíu, heldur önnur lönd til að selja framleiðsluna sína til. Og þeir óttast ekkert, því hvatningin til þessa kemur frá forsetanum.“ Hér talar sem sagt einn af þeim sem hefur dregið fram lífið í skóginum með því að nýta það sem skógurinn hefur upp á að bjóða.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.

Mælingar sýna að eyðing Amazonskóganna hefur snaraukist eftir að Jair Bolsonaro tók við forsetaembættinu í byrjun þessa árs - sem þarf kannski ekki að koma á óvart. Hann hafði lofað þessu í kosningabaráttunni og aflað með því stuðnings bænda sem telja að of mikið af Amazonsvæðinu hafi notið verndar. Bolsonaro hefur dregið úr aðgerðum stjórnvalda til að vernda skóginn.

Þegar brasilíska geimrannsóknastofnunin gaf út í sumar að eyðing skóga hefði verið næstum tvöfalt meiri í júní á þessu ári en í sama mánuði í fyrra brást Bolsonaro við með því að reka forstjóra stofnunarinnar þar sem hann sagði tölurnar ekki marktækar. Og þegar aðrar þjóðir lýsa yfir áhyggjum af því sem er að gerast er svarið yfirleitt á þann veg að Amazonskógurinn sé ekki heimsminjar - þetta sé arfleifð Brasilíu og brasilísk stjórnvöld eigi að ráða hvað verði gert við svæðið.

Skógur ruddur fyrir kjötframleiðslu

En hvers vegna skiptir svona miklu máli að skapa meira pláss fyrir búfjárrækt? Fyrir því eru aðallega efnahagslegar ástæður. Brasilía er nefnilega það land sem framleiðir mest af nautakjöti, og mikið af því er flutt út til bæði Bandaríkjanna og Evrópu. Og bændur telja, kannski eðlilega, að það sé nauðsynlegt fyrir Brasilíu sem þjóð að þeir framleiði þessa afurð áfram.

Það segir meðal annars Húlio Dias bóndi frá Rondoniu – sama fylki og höfðinginn Antenor sem við heyrðum syngja hér áðan. Hulio gefur lítið fyrir málflutning þeirra sem eru ekki búsettir á Amazonsvæðinu. „Ef við ræktum ekki búfé til kjötframleiðslu, hvernig á þá heimsbyggðin að mæta prótínþörf sinni? Myndu allir þá verða vegan?“ spyr hann og hlær við. „Við Brasilíumenn erum ekki hrifnir af grænum laufum. Við viljum lítið grænmeti en mikið kjöt.“

Hulio segir jafnframt að ekki sé hægt að lifa af því að tína litlar kókoshnetur í skóginum. Þetta sé blekking sem ferðamenn og umhverfisverndarsinnar séu haldnir.

Þeir sem vilja vernda skóginn hafa þó bent á að þeir séu ekki á móti því að jarðvegurinn sé nýttur - það verði hins vegar að gera það á sjálfbæran hátt.

Þiggur ekki alþjóðlega aðstoð

Þetta er staða sem Bolsonaro vissulega erfði þegar hann komst til valda - en gagnrýnin sem hann hefur fengið er að hann hafi gengið of langt í að ryðja niður skógi. Og burtséð frá skógeyðingunni hefur hann skorið niður fjármuni til umhverfisverndar um fjórðung í embættistíð sinni.

Vegna þrýstings frá umhverfisverndarsinnum setti Bolsonaro þó á sextíu daga bann við að kveikja slíka elda, auk þess sem hann þáði fjórar flugvélar frá ríkisstjórninni í Chile til að berjast við eldana. G7-ríkin buðu síðan Bolsonaro aðstoð upp á 22 milljónir dollara, jafnvirði tveggja komma sjö milljarða króna, á fundi sínum í ágúst. Emmanuel Macron forseti Frakklands kynnti áætlun sem fól í sér að slökkva fyrst eldana og reyna svo að endurheimta þann skóg sem hefði tapast og vernda það sem hann kallaði lungu heimsins. Eins og Ingibjörg Svala skýrði áðan er slíkt nafngift byggð á misskilningi þó að rétt sé að skógurinn sé mikilvægur fyrir líf á jörðinni.

Mynd með færslu
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Mynd:
Emmanuel Macron, forseti Frakklands.

Macron var hins vegar ómyrkur í máli gagnvart Bolsonaro á þeim fundi, eftir að hann hafi reyndar sagt virða brasilísku þjóðina og fullveldi hennar. „Í fyrsta sinn sem ég hitti Bolsonaro sagði hann með mikilli innlifun: „Ég mun gera allt til að byggja upp skóginn og fylgja Parísarsáttmálanum svo að við getum staðfest fríverslunarsamninginn við Evrópusambandið.“ Fimmtán dögum síðar var hann farinn að reka vísindamenn. Það má segja að hann hafi ekki sagt mér sannleikann.“

Macron gaf jafnvel í skyn að viðræðum um fríverslunarsamninginn, sem er milli Evrópusambandsins og fimm Suður-Ameríkuríkja verði hætt ef Brasilía breytti ekki um stefnu í málefnum skógarins. Loftslagsmál séu þess eðlis að enginn geti sagt að þetta sé ekki sitt vandamál.

Bolsonaro var afar ósáttur við þessi ummæli Macrons og taldi þau móðgun við sig. Þegar hann var spurður um þetta boð um aðstoð frá G7 ríkjunum sagði hann: „Fyrst þarf Macron að taka til baka móðgun sína í minn garð þar sem hann segir að ég sé lygari. Og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið sagði hann að sjálfstæði okkar væri „opið“ í málefnum Amazon. Þannig að til að taka þátt í viðræðum eða þiggja nokkuð frá Frakklandi þarf hann að draga þessi orð sín til baka. Þá getum við rætt saman.“

Þetta er reyndar ekki eina fyrirhugaða aðstoðin frá öðrum þjóðum sem hætt hefur verið við. Þýsk og norsk stjórnvöld hugðust leggja fram samanlagt jafnvirði um 11 milljarða króna til aðstoðar vegna eldanna. Yfirvöld þeirra hættu hins vegar við eftir að Bolsonaro lýsti því yfir að hluti þess fjár myndi fara til bænda sem ræktuðu búfé og sojaplöntur - og myndu þá væntanlega nýta það fé til að ryðja meiri skóg. Meðan Brasilía þiggur ekki þessa aðstoð annarra landa er hæpið að slökkvistarf í Amazonskóginum gangi nokkuð hraðar en það gerir nú.

Þessi langi tími sem eldarnir hafa logað eru farnir að valda Bolsonaro vandræðum í embætti. Til að mynda mótmæltu nokkrir aðgerðum hans gegn Amazonskóginum þegar haldið var upp á þjóðhátíðardag Brasilíu, og við fleiri tækifæri.

Lítill vilji Bolsonaros til að þiggja hjálp frá Evrópu hefur einnig verið gagnrýndur þar sem ljóst er að Brasilíumenn ráða ekki við eldana án utanaðkomandi hjálpar. Umhverfisráðherrann í ríkisstjórn hans hefur meðal annars sagt að slík hjálp væri vel þegin, og þá hafa einstaka fylkisstjórar í þeim héruðum sem hafa orðið verst úti vegna eldanna nefnt þann möguleika að semja um hjálp framhjá ríkisstjórninni og tala beint við Evrópuríkin. Tíminn verði að leiða í ljós hvort af því verður. Fylgi Bolsonaros í skoðanakönnunum hefur einnig farið minnkandi en eins og fram hefur komið hér að framan á hann sinn trausta stuðningsmannahóp.

Bolsonaro heldur þó fram að verið sé að berjast gegn eldunum með góðum árangri, en það er af mörgum ekki talið trúverðugt.

Eldarnir hafa meira að segja endurspeglað átök milli trúarhópa. Einn erkibiskupa kaþólsku kirkjunnar hefur líkt eldunum við ragnarök og gaf í skyn að sjálfur Franz páfi myndi mótmæla aðgerðarleysi í eldunum. Ekki er reyndar víst að þetta hafi nokkur áhrif á Bolsonaro þar sem hann hefur sinn stuðning frá mótmælendum sem eru fjölmennari í Brasilíu og hafa þar að auki ekkert við starfshætti forsetans að athuga.

epa07792871 A handout photo made available by Greenpeace Brazil showing smoke rising from the fire at the Amazon forest in Novo Progresso in the state of Para, Brazil, 23 August 2019.  EPA-EFE/Victor Moriyama / Greenpeace Brazil HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES/NO ARCHIVES
Eldur í Amazon-regnskóginum í Novo Progresso í Para-fylki í Brasilíu um helgina. Mynd: EPA-EFE - Greenpeace Brazil

Það er enn hægt að snúa við

Það er hins vegar erfitt að lesa í hvað gerist næst - og ekki síst hvað gerist ef skógurinn verður áfram ruddur og brenndur af jafn miklum krafti og það sem af er ári. Vísindamenn hafa þegar lýst yfir áhyggjum af áhrifum skógareyðingarinnar á lífríkið þar - ekki aðeins á gróðurinn heldur líka fugla og fisktegundir sem lifa í Amazonfljótinu. Þetta eru rökréttar áhyggjur því þessar lífverur þurfa súrefni og ef það minnkar, og aðeins koltvísýringur kemur í staðinn, dregur það úr lífslíkum þessara lífvera, og þá þar af leiðandi úr líffræðilegri fjölbreytni.

Reyndar vill höfðinginn Antenor frá Rondoniu meina að veðurfar í skóginum sé þegar farið að breytast - áður hafi allt verið í góðu jafnvægi - rigning á ákveðnum tíma og sólin skein á ákveðnum tíma. Nú sé þetta ekki lengur raunin. Það verði ekki lengur lífvænlegt eftir tíu ár ef allir hugsa eins og Bolsonaro.

Vísindamenn hafa reyndar um nokkurt skeið varað við því að skógurinn gæti mögulega tapað sjálfbærni sinni - og þetta á reyndar við um fleiri regnskóga því tveggja ára almenn rannsókn á slíkum skógum gaf þá niðurstöðu að regnskógar væru farnir að losa meira kolefni en þeir binda. Eins og Ingibjörg Svala sagði áðan er vatn í stöðugri hringrás í skóginum og áhyggjurnar eru verulegar af því að frekari eyðing hafi áhrif á þessa hringrás.

„Í versta falli gæti þetta leitt til endanlegrar eyðingar Amazon. Við erum ekki alveg komin á þann tímapunkt núna. Ef þetta heldur áfram sem horfir náum við því stigi að ekki verður aftur snúið. Það sem er að gerast er að með eyðingu regnskógarins erum við að breyta honum í annað gróðurfar sem kallast savannah, sem er miklu þurrara. Það vantar þá skóginn sjálfan til að viðhalda hringrás vatns og annarra næringarefna, vistkerfið er mun ófrjósamara og líffræðileg fjölbreytni mun minni. Þetta er versta sviðsmyndin. En vísindamenn telja að við séum ekki alveg búin að ná þessu ennþá. Þó að eyðingin hafi verið mjög hröð og umfangsmikil þá er enn hægt að snúa við.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi