Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gæti endað með Sigríði fyrir dómstólum

14.06.2018 - 15:10
Bóndi í Þingeyjasveit má ekki taka upp nafn ömmu sinnar vegna þess að hann er karlmaður. Hann ætlar í hart við Mannanafnanefnd og útilokar ekki að fara í fyrsta sinn í mál við einhvern. Og það verði þá ríkið. „Ég vil fara alla leið og heita bara nafninu hennar ömmu, en ekki útúrsnúningi af því,” segir hann.

„Þau reiknuðu með stelpu”

Hlynur Snæbjörnsson er sauðfjárbóndi í Reykjadal. Hann rekur líka ferðaþjónustu með konunni sinni, smíðar, kennir og situr í sveitarstjórn Þingeyjasveitar. En það var ekki vegna þeirra verka sem hann rataði á síður fjölmiðla í vor, heldur vegna þess að hann vildi gera alvöru úr fimmtíu ára gamalli ákvörðun foreldra sinna. 

„Þau reiknuðu með stelpu,” segir Hlynur. „Og ég átti að heita eftir ömmu minni heitinni, sem var reyndar búin að vera dáin í um 40 ár þegar ég fæddist. Svo gekk það ekki eftir og ég fékk nafnið Sigurður Hlynur.”

Fær ekki að heita Sigríður því hann er karl

Hann ákvað því að breyta nafninu sínu, úr Sigurði í Sigríði. „Ég vil fara alla leið og heita bara nafninu hennar ömmu, en ekki útúrsnúningi af því,” segir hann.

En það gekk ekki jafn hnökralaust og hann bjóst við. Í maí fékk Hlynur synjun frá Mannanafnanefnd á þeim forsendum að Sigríður sé kvenmannsnafn og hann karlmaður. „Ég sá engin rök fyrir því að þetta nafn gæti ekki verið karlmannsnafn, alveg eins og Blær og Auður til dæmis.”

Áfrýjar aftur til nefndarinnar

Hann ætlar að áfrýja til nefndarinnar en hyggst ekki að gefast upp ef hún synjar aftur.  

„Ég þarf þá bara að taka þá ákvörðun um að fara í fyrsta skipti í mál við einhvern. Og það yrði þá bara ríkið.”

Hlynur hefur lítið notað Sigurðarnafnið, börnin hans eru til að mynda Hlynsbörn. Fjölskylda hans og vinir styðja nafnabreytinguna, en hvað gera bændur ef hann fær á endanum að heita Sigríður? 

„Ég veit að margir kunningjar mínir og vinir mundu klárlega kalla mig Sigríði eða jafnvel Siggu,” segir hann. „Í lögunum stendur að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Ég er hvorugt og það er ekki verið að gefa mér nafn, ég vil taka mér þetta nafn. 

Og það má ekki vera nafnbera til ama. Þetta nafn mun ekki verða mér til ama.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV