Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gæludýraeigendur missa ekki íbúðir strax

13.05.2015 - 16:18
Köttur hvílir sig í rúmi.
 Mynd: Pixabay
Nú líður að því að leigjendur í íbúðum Brynju, húsfélags Öryrkjabandalags Íslands eigi að vera búnir að losa sig við gæludýrin sín. Brot á þessu þýðir þó ekki að strax dragi til tíðinda og samningum verði rift þar sem ferlið er þríþætt og tekur ákveðinn tíma í framkvæmd.

Fram hefur komið í fréttum að hússjóðurinn hefði tilkynnt íbúum að þeir þyrftu að losa sig við dýrin fyrir 15. maí, annars yrði húsaleigusamningi þeirra rift. 

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins segir að verið sé að skoða málin. Hann bendir á að ferlið sé þannig að þegar reglur eru brotnar fái fólk fyrst áminningu og síðan lokaviðvörun áður en loks kemur að riftingu leigusamnings. Það er því ljóst að ekki mun draga til tíðinda þegar 15. maí rennur upp, jafnvel þótt dýrin séu enn inni á heimilum eigenda sinna. Björn segir að ekki hafi verið sérstaklega rætt um að leyfa dýr í ákveðnum húsum félagsins en halda öðrum gæludýralausum. Þannig mætti þó mögulega koma til móts við bæði þá íbúa sem vilja dýrahald og þá sem eru á móti slíku vegna ofnæmis, hræðslu eða af öðrum ástæðum. 

Ákvörðunin mætir harðri andstöðu
Öryrkjum í leiguíbúðum á vegum Brynju, hússjóðs ÖBÍ barst sú tilkynning þann 12. mars síðastliðinn að gæludýr yrðu ekki leyfð í íbúðum á vegum félagsins eftir 15. maí. Þar er ekki verið að breyta reglum heldur á nú að byrja að framfylgja reglum sem lengi hefur verið horft framhjá brotum á. Nú eru því tveir dagar í það að fólk eigi að vera búið að losa sig við gæludýrin sín. Viðbrögð þeirra gæludýraeigenda sem fréttastofa hefur rætt við hafa verið á þann veg að þeir segjast ekki geta hugsað sér að láta dýrin sín frá sér og mótmæla ákvörðuninni harðlega.

Kattavinafélagið skorar á ÖBÍ að afturkalla ákvörðun sína og stjórn Dýraverndunarsambands Íslands fordæmir hana. Stjórn Dýraverndunarsambandsins kallar ákvörðunina jafnframt mannfjandsamlega og óskiljanlega ásamt því að benda á að rannsóknir sýna fram á að gæludýraeign hefur góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks.