Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Gæfusmiður í Listasafni ASÍ

Mynd með færslu
 Mynd:

Gæfusmiður í Listasafni ASÍ

16.02.2013 - 18:40
Myndlistasýningin Gæfusmiður var opnuð í dag í Listasafni ASÍ. Áhorfandinn fær val um hvaða leið hann fer inn í safnið og er um leið minntur á það að við fæðumst ekki öll með sömu spil á hendi.

Á sýningunni eru skúlptúrar, videóverk og ljósmyndir þar sem mótun og samfélag er skoðað út frá kynjafræðilegum vinkli.

„Þú kemst ekki inn á sýninguna nema að fara í gegnum annað hvort táknið sem þú hefur valið þér, það var kannski ekkert mál fyrir þig að velja, þú hefur kannski valið að fara í gegnum karlinn, en þá kemstu að því að þú þarft að fara í gegnum konuna líka", segir Eirún Sigurðardóttir myndlistarkona.

Það er misjafnt hvaða efni fólk hefur til þess að smíða sitt líf úr.

„Gæfusmiður tengist hugmyndinni um það að hver sé sinnar gæfu smiður, við segjum þetta oft og trúum þessu og þetta er alveg satt að stórum hluta, en svo er svo margt sem við ráðum ekki við", segir Eirún.

Í stærsta salnum er stór veggur úr Doka plötum, einu af burðarefnum sýningarinnar.

Eirún segir að „ástæðan fyrir því að ég fór að nota þessar Doka plötur er að þær eru notaðar til þess að móta hús, og ég er að velta því fyrir mér hvernig samfélagið mótar okkur".