Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fyrstu tölur væntanlegar á miðnætti

18.09.2014 - 18:45
epa04404214 Ballot boxes are carried into vans at a depot in Edinburgh, Scotland, 17 September 2014 on the eve of the Scottish independence referendum.   Both sides in the Scottish referendum were holding rallies during the day to win over undecided
 Mynd:
Mynd:  / 
Það hefur tæplega ríkt önnur eins pólitísk spenna í Bretlandi í elstu manna minnum eins og í dag. Tilefnið er auðvitað þjóðaratkvæðagreiðsla Skota um sjálfstæði. Í Bretlandi er engin þjóðskrá og því þurfa kjósendur að gæta þess að þeir séu á kjörskrá.

Tæplega 4,3 milljónir manna eru á kjörskrá, það er 97 prósent allra þeirra sem hafa rétt til að kjósa. Kjörstaðir í Skotlandi opnuðu klukkan sjö í morgun og þeim verður ekki lokað fyrr en klukkan tíu í kvöld. Þegar hafa tæplega 800 þúsund manns kosið fyrir kjördag. Þarna er slegið met og það talin vísbending um að kosningaþátttakan slái líka öll met, giskað á 85 prósent. Þátttaka hefur annars verið í kringum 60 prósent. Landið skiptist í 32 bæjarfélög, þau eru kjördæmin í atkvæðagreiðslunni og alls er kosið á tæplega 5600 kjörstöðum.

Skotar vaka og markaðirnir líka

Atkvæðin eru talin í hverju bæjarfélagi, ekki byrjað að telja fyrr en kjörstöðum hefur verið lokað og ekki búist við fyrstu tölum fyrr en eftir miðnætti. Tölur úr stærstu bæjarfélögunum - Glasgow, Edinborg og Aberdeen - koma líklega ekki fyrr en undir morgun. Það er yfirkjörstjórnin í Edinborg sem tekur svo allar tölurnar saman og birtir heildar úrslitin, búist við þeim í bítið í fyrramálið. Útgönguspár munu þó væntanlega strax leggja línurnar en ef mjótt verður á munum, eins og horfur eru á gæti orðið spenna fram á síðustu stundu. Skotar vaka vísast og sama gera markaðirnir sem spá í hreyfingar pundsins.

Dramatískar forsíður

Forsíður bresku blaðanna í dag eru dramatískar, með ýmsum hætti, til að undirstrika sögulegan dag. Forsíða háðblaðsins Private Eye nú í vikunni birtir tvær landslagsmyndir til að lýsa framtíðarhorfum sjálfsstæðs Skotlands samkvæmt já- og nei-fylkingunum: önnur er af sólríkum suðurhafsströndum - svona líti sjálfstætt Skotland út samkvæmt sjálfstæðissinnum; hin er af myrkum klettum og eldgosi í baksýn, dómsdagssýn sambandssinna.

Tengsl Salmonds við Murdoch

Private Eye birtir einnig stutta klausu um efni sem hefur svosem sést nefnt víðar en þó afar lítið farið fyrir en það er náið samband Alex Salmonds leiðtoga Skoska þjóðarflokksins og fyrsta ráðherra Skota við ástralska fjölmiðlakónginn Rupert Murdoch. Salmond hefur ekki hampað mikið sambandinu við Murdoch en bresk rannsókn vegna símhleranna Murdoch-miðlanna leiddi í ljós fjölmarga fundi þeirra. Í kjölfar rannsókna á starfsemi Murdoch-miðlanna hér í Bretlandi hefur Murdoch ekki mikið dálæti á forystu Íhaldsflokksins og hefur verið með herskáar yfirlýsingar á Twitter um glóðaraugað sem sigur sjálfstæðissinna gæti gefið bresku flokkunum.

Blað Murdoch hampar Salmond

Murdoch kom til Skotlands nú rétt fyrir kosningar en hann hefur ekki gengið svo langt að beita dagblaði sínu, The Sun, til að lýsa yfir stuðningi við Salmond og sjálfstæði. Undanfarið hefur blaðið hins vegar ákaft hampað Salmond og gagnrýnt sambandssinna. Einn viðmælandi Spegilsins, sambandssinni úr fjármálahverfinu City, hafði á orði að það væri ókannað hversu ötulan stuðning Murdoch-miðlarnir hefðu veitt Salmond. Í  ljósi þess að stjórnmálamenn gerðu gjarnan hosur sínar grænar fyrir Murdoch mætti ganga að því sem vísu að Salmond teldi sambandið málstað sínum til framdráttar.

Ætla að virða niðurstöðuna

Sjálfstæðismálið hefur verið gríðarlegt hitamál undanfarna mánuði, fyrst einkum í Skotlandi en eftir að lukkan fór að snúast sjálfstæðissinnum í hag og ensku stjórnmálaleiðtogarnir að blanda sér öflugar í málið hefur sjálfstæðismálið sannarlega komist á dagskrá í Englandi. Atkvæðagreiðslan mun tæplega kveða þær umræður niður. Alex Salmond hefur marg ítrekað að hann virði niðurstöðuna, sama hver hún verði. Hann stefni ekki á að endurtaka atkvæðagreiðsluna eftir nokkur ár jafnvel þó sambandssinnar ynnu nauman sigur. Sama segja sambandssinnar: þetta sé sögulegur atburður núverandi kynslóða.

Langt og strangt samningaferli í vændum 

Ef sjálfstæðissinnar hafa sigur tekur við langt og strangt samningsferli með tilheyrandi óvissu bæði fyrir Skota og afganginn af Bretlandi. Ef sambandssinnar vinna tekur líka við langt og strangt samningsferli um hvað Skotum var eiginlega lofað af aukinni sjálfstjórn. Báðar útkomur munu hafa í för með sér pólitískar hræringar sem erfitt er að spá um, ekki síst af því hér verða þingkosningar næsta vor.