Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrstu skrefin að losun hafta

06.03.2015 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðgerðirnar sem Seðlabankinn tilkynnti í dag eru fyrstu skrefin að losun gjaldeyrishafta, segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Seðlabankinn þrengdi um fjárfestingarkosti aflandskrónueigenda með því að fækka kostum á undanþágulista vegna gjaldeyrishafta.

Bjarni var spurður út í aðgerðir Seðlabankans í sjónvarpsfréttum í kvöld. Aðspurður hvort tilkynning Seðlabankans í dag þýddi að byrja ætti að tækla aflandskrónuvandann svaraði Bjarni: Ekki nauðsynlega. Það fylgir ekki þessari ákvörðun að það verði tekið fyrst á því. En þetta sýnir að við erum komin mjög langt með þann þáttinn og við erum komin langt líka með aðra þætti málsins. En þetta sýnir að við erum að verða reiðubúin til að taka á aflandskrónuvandanum.“

„Það má segja að fyrstu skrefin hafi verið tekin þegar Seðlabankinn var með síðasta útboð í febrúar, á gjaldeyri. Nú er þetta skref tekið og þrengt að nýjum valkostum fyrir aflandskrónueigendur sem vilja færa sig milli fjárfestingakosta. Það er ekkert tekið af neinum en þrengdir mjög fjárfestingarkostirnir,“ segir Bjarni. Þannig sé búið í haginn fyrir næstu skref. Bjarni segir að með vissum hætti sé verið að eyða óvissu og skapa betri stöðu til að ráðast í næstu aðgerðir.

Aðspurður hvort þetta séu fyrstu skrefin að því að afnema gjaldeyrishöftin svaraði Bjarni: „Já, ég vil kalla þetta fyrstu skrefin. Þetta eru undirbúningsaðgerðir sem að munu á skömmum tíma geta leitt til þess að aflandskrónuvandinn verður fyrir aftan okkur,“ sagði Bjarni. „Við vonumst til að geta fengið niðurstöðu í þennan þátt málsins á næstu mánuðum. Ég myndi nefna fyrri hluta þessa árs í því samhengi. Það er það sem öll okkar vinnu gengur út á en það er ekki ábyrgt að festa neina dagsetningar í því, nákvæmlega.“