Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu hugmyndir að nýju leiðaneti Strætó

09.10.2019 - 22:10
Generated on May 20, 2019, 12:25 pm
 Mynd: Strætó
Strætó kynnti í dag fyrstu hugmyndir að nýju leiðaneti sem innleiða á næstu árin með tilkomu Borgarlínu og breyttum áherslum í uppbyggingu leiðakerfisins. Samkvæmt þessum fyrstu hugmyndum verða sjö stofnleiðir á höfuðborgarsvæðinu og ellefu almennar leiðir. Vagnar á stofnleiðum aka samkvæmt þessu á sjö til tíu mínútna fresti á annatímum en fimmtán til tuttugu mínútna fresti þess utan.

Skoða má leiðirnar, tíðni þeirra og ferðaleið, á vef Strætós. Leiðanetið byggir á vinnu faghóps um leiðakerfismál og á að leiða til tíðari ferða og styttri ferðatíma. Ein stofnleiðin liggur frá Ráðhúsinu í Reykjavík að Vatnsenda í Kópavogi. Önnur er frá BSÍ upp í Grafarvog og sú þriðja liggur frá Seltjarnarnesi upp í Breiðholt. Tvær stofnleiðir til viðbótar eru frá BSÍ, önnur að völlum í Hafnarfirði en hin í Mosfellsbæ. Stofnleið verður milli Granda og Norðlingaholts og Reykjavíkurflugvallar og Hafnarfjarðar.

Hér má sjá gagnvirkt kort með stofnleiðum og almennum leiðum samkvæmt þessum hugmyndum.

Nýja leiðakerfið byggir á nýjum áherslum þar sem meiri áhersla er lögð á tíðari ferðir en áður, á móti kemur að leiðirnar þekja svæðið ekki jafn vel og áður. Því gætu farþegar þurft að fara lengra til að ná strætisvagni. Fleiri íbúar eiga þó að búa við tíðari ferðir eftir en áður. 

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Birgir Þór Harðarson
Gömlu leiðirnar hverfa en nýjar koma í staðinn.

Hugmyndirnar verða kynntar á fundum á höfuðborgarsvæðinu þegar líður á mánuðinn. Þar gefst fólki færi á að kynna sér leiðanetið og koma með ábendingar. 

  • 21. október 15:00-18:00 - Háholt í Mosfellsbæ
  • 22. október 15:00-18:00 - Mjódd
  • 24. október 15:00-18:00 - Smáralind
  • 28. október 15:00-18:00 - Fjörður
  • 29. október 12:00-14:00 - Háskólatorg
  • 29. október 16:00-18:00 - Háskólatorg
  • 31. október 16:00-18:00 - Ráðhús Garðabæjar, Garðatorg 7