Fyrstu hóparnir að koma í hús við Gullfoss

08.01.2020 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Fyrsti hópurinn úr röðum ferðafólksins sem lenti í hrakningum við Langjökul í gær kom í hús í Gullfosskaffi rétt um klukkan sex í morgun. Í hópnum eru meðal annarra börn og ungmenni, þau yngstu um sex og tíu ára gömul. Þau undirgangast nú skoðun lækna frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Tveir læknar eru á staðnum og skoða fólkið áður en lengra er haldið. Það eru ungmenni og börn sem fylla þennan fyrsta hóp, þau yngstu um það bil 6 og 10 ára.

„Það er ekki að sjá að fólk sé neitt slasað eða illa haldið en það er sjáanlegt að því er kalt og það er hrakið,“ segir Alma Ómarsdóttir fréttamaður sem er á staðnum.

Alma segir ljóst að ekkert ferðaveður sé á þessum slóðum þessa stundina. „Hér er alveg blint. Ég horfi hér út um gluggann og sé ljósin af björgunarsveitarbílunum en maður sér nú ekki mikið lengra. Ef maður rétt stígur hér út fyrir og aftur inn nokkrum sekúndum síðar er maður orðinn alveg hvítur frá toppi til táar þannig að það er alveg ljóst að það er ekkert ferðaveður úti.“

Allir í hópnum virðast vera erlendir ferðamenn fyrir utan starfsmenn ferðaskrifstofunnar sem stóð fyrir leiðangrinum, segir Alma. Ferðamennirnir virðist flestir vera frá sama landi. 

Hún segir að erfitt sé að segja til um hversu langan tíma björgunarstarfið taki. Flytja þarf fólkið með snjóbílum ofan af jöklinum í hollum. 

Héldu á jökulinn með 39 manns þrátt fyrir veðurviðvörun

39 ferðalangar, allir erlendir, voru í vélsleðaferð við Langjökul seinni partinn í gær, ásamt starfsfólki ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland, þegar óveðrið sem spáð hafði verið skall á með þreifandi byl og ófærð. Var þá kallað eftir aðstoð lögreglu og björgunarsveita og voru um 200 manns við leitar- og björgunarstörf í gærkvöld og nótt.

Sjá líka: Áströlsk hjón stefna Mountaineers of Iceland

Fólkið fannst um klukkan hálfeitt

Fyrstu leitarhópar komust til vélsleðafólksins um klukkan hálfeitt í nótt. Þeir leitarhópar voru á vélsleðum en rétt fyrir klukkan eitt kom fyrsti snjóbíllinn á staðinn og tveir til viðbótar nokkru síðar. Var fólk þá orðið kalt, blautt og skelkað, en heilt að öðru leyti, að sögn Sveins Kristjáns.

Snjóbílarnir fluttu fólkið til móts við björgunarsveitarfólk sem beið þeirra á vel útbúnum jeppum. Er nú verið að selflytja fólkið að Gullfosskaffi við Gullfoss. Alma Ómarsdóttir fréttamaður er þar og segir að fyrsti hópurinn hafi komið í hús nánast á slaginu sex, og von sé á hinum þá og þegar.

Læknar, sjúkraflutningamenn, Rauði krossinn og heitt á könnunni

Í Gullfosskaffi bíður fólksins vösk sveit sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, greiningarsveit frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og sjúkraflutningamenn, til vonar og vara.  Þarna verður hlúð að fólki og því gefinn matur og drykkur áður en haldið verður áfram til enn neðri byggða. 

Ekki í fyrsta sinn sem farið er á jökulinn þrátt fyrir viðvörun

Samkvæmt heimildum fréttastofu stóð fyrirtækið Mountaineers of Iceland fyrir ferðalaginu, og var lagt af stað klukkan þrettán í gær. Þetta er sama fyrirtæki og fór með fólk í vélsleðaferð á þessar sömu slóðir fyrir þremur árum þrátt fyrir að Veðurstofan hefði varað við stormi. Áströlsk hjón sem voru í þeirri ferð urðu viðskila við hópinn og óttuðust að verða úti, þar til þeim var komið til bjargar um sjö klukkustundum síðar. Um 180 manns tóku þátt í leitinni að þeim. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi